geoSilica í stöðugum vexti

Sprotafyrirtækið geoSilica hefur ráðið þrjá nýja starfsmenn, þær Hildi Rún Sigurðardóttur Kvaran, Emilíu Valdimarsdóttur og Mariu Kathrine Idarraga Calderon.
 
Hildur Rún Sigurðardóttir Kvaran hefur verið ráðin sem rekstrastýra og mun því bera ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins. Hildur er tæknifræðingur að mennt, en hún útskrifaðist árið 2017 frá Háskóla Íslands með B.Sc. gráðu í orku- og umhverfistæknifræði. Hildur hefur í námi sínu unnið náið með geoSilica, og gerði meðal annars lokaverkefni sitt fyrir fyrirtækið þar sem hún gerði rannsókn sem nýttist í vöruþróun á þremur nýjum vörum sem komu í verslanir í september síðastliðinn.
 
Emilía Valdimarsdóttir starfar nú sem framleiðslustýra geoSilica, en um er að ræða nýtt stöðugildi innan fyrirtækisins. Hún mun hafa yfirumsjón með framleiðslu kísil steinefnisins ásamt því að bera ábyrgð á gæðaeftirliti. Emilía er menntaður orkuverkfræðingur, en hún útskrifaðist árið 2017 frá Háskólanum í Reykjavík með M.Sc. gráðu í Orkuverkfræði og þar áður hafði hún lokið B.Sc. gráðu í Vélaverkfræði frá sama skóla. Lokaverkefni hennar í meistaranáminu snéri að nýtingu lághita jarðvökva til raforkuframleiðslu með notkun á tvívökvakerfi. 
 
Maria Kathrine Idarraga Calderon hefur verið ráðin sem skrifstofustýra, en hún mun sinna bókhaldi fyrirtækisins og almennum skrifstofustörfum ásamt því hafa yfirumsjón með samskiptum við viðskiptavini. Starfinu sinnir hún samhliða námi sínu hjá Prómennt, en hún er að ljúka námi sem gefur henni réttindi til að starfa sem löggiltur bókari.
 
Að sögn framkvæmdastýru geoSilica, Fidu Abu Libdeh, eru þetta mikil tíðindi fyrir fyrirtækið sem er að stækka mjög hratt, en fjöldi starfsmanna hefur tvöfaldast frá áramótum og búist má við enn meiri aukningu á næstunni. Þessi aukning er í samræmi við markmið fyrirtækisins um að skapa atvinnutækifæri á svæðinu. Mikil eftirspurn eftir vörunum kallar á mikinn og hraðan vöxt, og telur Fida að mikilvægasti þátturinn í vextinum sé öflugt teymi.
 
„Ég hef alltaf talað fyrir því að efla lítil og meðalstór fyrirtæki, því þeim fylgja mikil sóknarfæri. Valið á nýliðum geoSilica er byggt á eigin reynslu sem ég hef fengið hér í Reykjanesbæ, en hérna fékk ég tækifæri til menntunar og betri framtíðar. Ég vil gefa ný útskrifuðum konum tækifæri til að afla sér starfsreynslunnar sem þarf til að komast á vinnumarkaðinn,“ segir Fida í tilkynningu.
 
„geoSilica hlakkar til að takast á við næstu stóru verkefni sem eru komin mjög lang, og það er stutt í að vörurnar komist inn á erlenda markaði,“ segir jafnframt í tilkynningunni.