Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

geoSilica hlýtur viðurkenningu
Fimmtudagur 10. janúar 2013 kl. 13:19

geoSilica hlýtur viðurkenningu

Fyrirtækið geoSilica fékk í gær viðurkenningu og nýsköpunarstyrk Landsbankans að upphæð 500.000 kr. til að framleiða og markaðssetja kísil sem fæðubótarefni í formi kísilsvifvökva sem unninn verður úr kísilríkum jarðhitavökva jarðvarmavirkjana.

Fyrirtækið geoSilica Iceland ehf. var stofnað af Fidu Abu Libdeh og Burkna Pálssyni ásamt fyrirtækinu Ögnum ehf. í framhaldi af lokaverkefnum þeirra í tæknifræðinámi Keilis. Fyrirtækið er með alla sína starfsemi á Suðurnesjum. Þau fengu verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóði sem mun tryggja fyrirtækinu fjármagn næstu 3 árin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið fyrirtækisins er að vinna hágæða kísil-heilsuvörur úr kísilríku affallsvatni jarðvarmavirkjanna sem í dag er að mestu leiti ónýtt auðlind. Kísill í affallsvatni getur skapað vandamál vegna kísilútfellinga og vegna umhverfissjónarmiða þarf að dæla vökvanum aftur niður í jarðhitageyminn með ærnum kostnaði. Til að byrja með mun fyrirtækið einbeita sér að þróun fæðubótarefnis í formi kísilsviflausnar til inntöku. Í því skyni þarf að hreinsa óæskileg steinefni úr vökvanum og vinnur geoSilica að þróun búnaðar sem fjarlægir uppleyst efni en heldur eftir kísilsameindum.

Rannsóknir hafa í síauknum mæli sýnt að kísill gegnir mjög veigamiklu hlutverki í mannslíkamanum. Kísill virðist vera nauðsynlegur fyrir rétta og ákjósanlega myndun kollagens sem er megin uppistaðan í bandvef og ennfremur gegnir hann lykilhlutverki í myndun og viðhaldi beina á þann hátt að hann segir líkamanum hvar hann eigi að koma fyrir steinefnum. Kísill er einnig mikilvægur fyrir heilbrigði húðar, tanna, hárs og nagla. Aukin kísilinntaka kvenna getur verið fyrirbyggjandi við beinþynningu.