geoSilica hefur útflutning til Bandaríkjanna
geoSilica Iceland ehf. á Suðurnesjum hefur hafið útflutning á Kísilsteinefni, sem er aðal vara fyrirtækisins. geoSilica landaði samningi við Daria imports LLC sem er Bandarískur dreifiaðili sem sérhæfir sig í dreifingu á náttúrulegum heilsuvörum í norður Ameríku.
„Þessir erlendu samningar eru mjög þýðingarmiklir fyrir geoSilica. Þeir gefa fyrirtækinu vissan gæðastimpil sem er nauðsynlegur fyrir markaðssetningu á viðkomandi vöru og styrkir ennfremur stoðir geoSilica,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri geoSilica, er gríðalega spennt fyrir samstarfinu við Daria Imports og hefur hún miklar væntingar til Bandaríkjamarkaðar.
GeoSilica er sprotafyrirtæki sem hefur það að markmiði að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur úr jarðhitavatni Hellisheiðarvirkjunar. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og kom fyrsta varan á markað árið 2015, hágæða 100% náttúrulegt íslenskt kísilsteinefni í vökvaformi tilbúið til inntöku. Kísilsteinefnið hefur margvíslega heilsusamlega virkni, getur m.a. stuðlað að fyrirbyggingu á beinþynningu, örvun kollagenmyndunar og bættri nýtingu kalks og annarra steinefna.
geoSilica er í óðaönn að þróa þrjár nýjar vörur en áætlað er að þær vörur komi á markað um mitt næsta ár.
„Nýju vörurnar munu allar innihalda kísilvatnið í grunninn með viðbættum náttúrulegum efnum. Þessar vörur fara beint í dreifingu á Bandaríkjamarkað og er það von okkar að salan aukist hjá okkur inngöngu inn á þann markað,“ segir í tilkynningunni.