GALLERÝ FÖRÐUN OPNAR STÆRRI VERSLUN:
Keflavík eða KringlanSnyrtivöruverslunin Gallery förðun í Keflavík hefur opnað nýja og glæsilega verslun að Hafnargötu 25. Gamla verslunin sem stóð á sama stað var fyrir löngu búin að sprengja utan af sér allt pláss og því var ráðist í stækkun. Breytingar á versluninni hafa lengi staðið til en fyrirtækið fagnar fimm ára afmæli um þessar mundir. Eigendur Gallery förðunar hugleiddu alvarlega að flytja verslunina frá Keflavík og opna í Kringlunni en ákváðu að vera kyrr.Það eru hjónin Rúna Óladóttir og Óli Garðarsson sem eiga Gallery förðun. Rúna hefur annast verslunarreksturinn frá upphafi. Hún segir þau fimm ár sem hún hafi stundað verslunarrekstur í Keflavík hafi verið ánægjuleg. Suðurnesjamenn og konur séu góðir viðskiptavinir og verslunin hafi vaxið jafnt og þétt og vöruúrval aukist. Þegar verslunarrými við hlið Gallery förðunar losnaði skapaðist tækifæri til að stækka verslunina.Baldvin Baldvinsson innanhússarkitekt var fenginn til að teikna nýja verslun Gallery förðunar. Einvalalið iðnaðarmanna af Suðurnesjum kom að innréttingu verslunarinnar. Þannig smíðaði Trésmiðja Héðins og Ásgeirs allar innréttingar og Húsabygging ehf. í Garði smíðaði stiga, milliveggi og fleira. Rafþjónsuta Þorsteins annaðist raflögn og lýsingu og Radíókjallarinn lagði til allan tækjabúnað er kemur að hljóði og mynd. Margir aðrir komu að breytingu verslunarinnar og vildu þau Rúna og Óli sérstaklega nefna Þorstein Árnason þúsundþjalasmið sem hefur unnið að breytingunum dag og nótt. Öllum þessum aðilum eru þau afar þakklát.Í versluninni er sérhannað verslanahljóðkerfi og einnig er stafrænt sjónvarpskerfi sem sjónvarpar tískusjónvarpi allan sólarhringinn. Einnig verður sett upp myndavélakerfi í verslunni þannig að myndir úr verslunni verða á sjónvarpsskjám frammi í búðinni.Það verður að teljast til tíðinda að einungis þurfti að loka Gallery förðun í þrjá daga vegna breyinganna. Iðnaðarmenn byrjuðu fyrst að innrétta þann hluta sem telst til stækkunar. Þegar því var lokið voru milliveggir rifnir niður og innréttingum komið fyrir í eldri hluta og gólfefni lögð.Vöruúrval í Gallery förðun hefur verið aukið frá því sem áður var, auk þess sem sú vara sem áður var á boðstólum fær meira og betra rými. Úrvalið af undirfötum hefur aldrei verið meira. Þá hefur nýtt heimsþekkt merki í snyrtivörum verið tekið til sölu í Keflavík. Það er snyrtivörulína frá Japan sem heitir Shiseido. Þetta vörumerki er t.a.m. eingöngu selt í höfuðborgum þjóðlanda og því telst það til tíðinda að varan sé til sölu í Reykjanesbæ. Það verður því að teljast gæðastimpill fyrir Gallery förðun að fá að vera einn af þremur söluaðilum Shiseido á Íslandi.Eigendur Gallery förðunar stóðu frammi fyrir þeirri ákvörðun þegar ákveðið var að breyta versluninni, hvort haldið yrði áfram verslunarrekstri í Keflavík og verslunin þar stækkuð eða flytja búferlum til höfuðborgarinnar og opna Gallery förðun í Kringlunni, en þá var ljóst að Kringlan væri að stækka. Keflavík varð fyrir valinu enda „Reykjanesbær á réttu róli“ sem þeim Rúnu og Óla finnst uppbyggilegt að taka þátt í. „Í Keflavík er gott umhverfi til að ala upp börn“, sögðu þau Rúna og Óli sem eiga fjögur börn.Texti og mynd: Hilmar Bragi Bárðarson