Gagnavarslan á Ásbrú 3ja ára og með 40 starfsmenn
Gagnavarslan ehf fagnaði 3 ára starfsafmæli sínu í höfuðstöðvum sínum á Ásbrú fyrr í dag en þangað var boðið fulltrúum fyrirtækja og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem kynntu sér starfsemi þessa sprotafyrirtækis sem hefur sérhæft sig í nýsköpun og þróun á sviði skjala- og upplýsingastýringar.
Forstjóri Gagnavörslunnar Brynja Guðmundsdóttir tók á móti gestum og sagði frá helstu verkefnum Gagnavörslunnar en fyrirtækið er í örum vexti.
Jónas Sigurðsson framkvæmdastjóri hugbúnaðarsviðs kynnti CoreData skjala- og upplýsingastýringakerfi Gagnavörslunnar sem byggt er á opnum hugbúnaði (ECM) og hugmyndafræðinni Software as a service.
Gagnavarslan var stofnun í nóvember árið 2007 og í dag starfa um 40 manns hjá fyrirtækinu.
Húsnæði Gagnavörslunnar á Ásbrú er sérhæft vörsluhúsnæði búið fullkomnu öryggis- og brunakerfi. Þar eru varðveitt skjöl, munir, menningarminjar og listaverk fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir. Einnig er veitt þjónusta við skönnun, skráningu og prentun.
Fjölbreyttur hópur starfsmanna með víðtæka menntun og reynslu starfar hjá fyrirtækinu, meðal annars tölvunarfræðingar, verkfræðingar, bókasafns- og upplýsingafræðingar, sagnfræðingur, safnafræðingur, viðskiptafræðingar og sérfræðingar í verkefnastjórnun og gæðamálum.
Marknmið Gagnavörslunnar er að aðstoða viðskiptavini við að ná hagræðingu í rekstri með aukinni yfirsýn, rekjanleika og skilvirkari ferlum.
Unnið er eftir stöðlum er gilda um gæðastjórn, upplýsingaöryggi og skjalastjórn.
Höfuðstöðvar fyrirtæksins eru á Ásbrú í Reykjanesbæ ásamt útibúi í Hafnarfirði.