Gæludýrahótel í fyrsta klassa á Suðurnesjum
Þegar hjónin Kristín Einarsdóttir og Daníel Þorgeirsson opnuðu Hunda- og kattahótel Suðurnesja í ágústbyrjun árið 2018 höfðu dýraeigendur suður með sjó ekki átt aðgang að gæslu fyrir dýrin sín vegna lokunar fyrra hundahótels. Það var því gleðifregn fyrir gæludýraeigendur þegar fréttist af opnun þessa nýja hótels þeirra hjóna og nú voru kettir einnig velkomnir.
Þau hjónin voru búin að kynna starfsemi þjónustunnar mjög vel, komin á góðan rekspöl, þegar kórónuveirufaraldurinn skall á með tilheyrandi lokun hjá þeim en stærsti hópur viðskiptavina var fólk á leið til útlanda sem kom með dýrin í pössun. Það er því tómlegt um að litast á hótelinu þessa dagana.
Miklir dýravinir
Hjónin hafa bæði umgengist dýr í gegnum ævina og að starfa með dýrum því eðlilegt fyrir þau. Reynsla Kristínar á Dýralæknastofu Suðurnesja styður vel við starfsemi hótelsins.
„Við eigum nokkra hunda sjálf og erum miklir dýravinir. Ég starfaði á Dýralæknastofu Suðurnesja sem aðstoðarmaður dýralæknis áður en við opnuðum hótelið og fann ég mikið fyrir því að fólk var að spyrja um pössun á öruggum stað fyrir gæludýrin sín. Vöntunin var greinilega mikil miðað við viðtökurnar sem við höfum fengið, þær hafa farið stigvaxandi frá því að við opnuðum sem er æðislegt. Nú yfir jólin og áramótin komust færri að með dýrin sín en vildu,“ segir Kristín.
Öll fjölskyldan hjálpast að
Börnin þeirra eru alin upp með dýrum, heima hjá þeim hafa ávallt verið hundar, kettir eða hvort tveggja.
„Krakkarnir okkar eru mikið með okkur í þessu og pabbi Kristínar, Einar Guðjónsson, hefur verið okkur stoð og stytta í öllu viðhaldi. Við erum ekki með neina sérstaka menntun á þessu sviði en reynsla okkar í umönnun dýra nýtist okkur mjög vel í starfinu. Að auki höfum við bæði átt gæludýr frá því að við munum eftir okkur og alltaf sótt í umgengni við dýr. Svo er auðvitað reynslan dýrmæt sem Kristín öðlaðist á Dýralæknastofunni sem aðstoðarmanneskja dýralæknis, þá bæði með umgengni við veik dýr og að læra inn á þessa helstu sjúkdóma sem geta hrjáð blessuð dýrin skemmir alls ekki fyrir,“ segir Daníel.
Dagskrá fyrir dýrin
Þjónustan beinist að hundum og köttum en það eru algengustu gæludýrin í eigu fólks.
„Við erum fyrst og fremst að passa hunda og ketti. Við reynum alltaf að hafa einhvers konar dagskrá fyrir dýrin sem koma til okkar, þá í formi útiveru sem á þá við um hundana og svo er meira um knús og leiktíma hjá kisunum fyrir þær sem vilja það. Á staðnum eru 30 stíur fyrir hunda og tíu búr fyrir ketti. Það komast þó fleiri að en það því ef um er að ræða tvo hunda af sama heimili þá geta þeir stundum deilt stíu. Í hverri hundastíu er bæli með mjúku undirlagi og allir fá nagbein og leikfang. Kattabúrin innihalda bæli, klórustaur og kattaklósett. Fóðrun katta og hunda er sniðin eftir þörfum hvers og eins og hafa dýrin öll aðgang að hreinu drykkjarvatni. Einnig bjóðum við upp á þá þjónustu að baða hunda og klippa klær gegn gjaldi. Sú þjónusta er þó eingöngu fyrir dýrin sem dvelja hjá okkur,“ segir Kristín.
Frábær aðstaða á Ásbrú
Það er heilmikið fjör sem bíður dýranna á meðan á pössun stendur ef það hentar dýrinu en það er metið hverju sinni því sum dýrin eru orðin lúin og gömul og vilja bara sofa allan daginn.
„Útisvæðinu er skipt í fjóra hluta sem nær yfir 1500 fermetra. Við aðskiljum yfirleitt smáhundana frá þeim stóru en það er auðvitað allur gangur á því hverjir geta verið saman úti. Það fer svo auðvitað eftir veðri hve mikil útivera er í boði og auk þess metum við hvern hund fyrir sig. Sumir eru orðnir gamlir og lúnir og þurfa að vera meira inni og hvíla sig en þeir yngstu og sprækustu eru yfirleitt mjög þreyttir og glaðir þegar eigendurnir koma að sækja þá. Þeir hafa þá verið að leika sér úti stóran part úr degi með hinum hundunum. Þetta er næstum því eins og að senda hundinn sinn í sumarbúðir,“ segir Daníel og blaðakona getur staðfest það eftir að hafa sent hundinn sinn í pössun til þeirra hjóna, sem var himinlifandi eftir dvölina, búinn að fá mikla útrás með öðrum hundum. Það er hollt fyrir hunda að leika sér við aðra hunda, ærslast, þefa og gera allar hundakúnstir.
Frábærar móttökur
Suðurnesjamenn og aðrir landsmenn hafa tekið þessari þjónustu mjög vel enda dekrað við dýrin frá morgni til kvölds sem það vilja. Knús og kærleikur fyrir þau sem vilja það.
„Móttökurnar hafa verið gríðarlega góðar og við erum óendanlega þakklát fyrir alla viðskiptavini okkar og finnum það á fólki að það er almennt ánægt með okkur. Þjónustan sem við bjóðum upp á er mjög sérhæfð og sérstök út af fyrir sig, ekki mörg hótel hér á landi eru að bjóða upp á sömu þjónustu og við. Við reynum alltaf að mæta þörfum hvers og eins og viljum hafa alla jafna og teljum það líka svolítið sérstakt að hundarnir sem koma til okkar hittist alltaf og leiki sér saman í útiverunni hjá okkur. Enginn er hafður aleinn úti nema einhverjar sérstakar ástæður séu fyrir því að hann hreinlega geti ekki umgengist aðra. Það sem er sérstakt við kisustarfsemina er að þær fá allar leiktíma á sérstöku leiksvæði. Við fylgjumst vel með hverju og einu dýri, að það fái það sem þarf til að þrífast vel hjá okkur,“ segir Kristín.
Alls konar dýragæsla í boði
Þjónustan hefur verið mikið nýtt í alls konar tilgangi.
„Fólk kemur aðallega með dýrin sín í pössun þegar það fer til útlanda eða bara í frí innanlands. Einnig vistum við dýr á meðan eigendur þeirra eru á spítala eða í endurhæfingu. Það hentar sérlega vel fyrir okkur að vera staðsett á Suðurnesjum, ekki fjarri Leifsstöð en við getum samt þjónað öllum landsmönnum. Við tökum á móti dýrum allan sólahringinn og líka á næturna. Þeir sem eru að fara í næturflug geta nýtt sér næturþjónustuna gegn vægu þjónustugjaldi. Einnig geymum við bílinn fyrir þá sem vilja gegn vægu gjaldi,“ segir Daníel.
Gæludýrin á Facebook
Tæknin hefur verið tekin inn í starfsemina því hótelið er með Facebook-síðu þar sem ljósmyndir eru birtar af gæludýrunum, eigendunum til mikillar ánægju.
„Við tökum nánast daglega myndir af hundunum og köttunum í leik og birtum á Facebook-síðu hótelsins. Við byrjuðum á þessu af rælni en fengum svo góð viðbrögð frá viðskiptavinum að við höfum haldið þessu áfram. Sumir hafa meira að segja rukkað okkur um myndir ef við erum ekki nógu snögg að birta þær. Fólki þykir gott að sjá dýrin sín þegar það getur ekki verið með þeim. Ein mynd segir líka meira en þúsund orð og þarna sér fólk að dýrinu líður vel,“ segir Kristín.
Áhrif kórónaveirunnar
Nú á þessum síðustu og verstu tímum hefur starfsemin legið niðri og verið vægast sagt erfitt að standa undir afborgunum, gjöldum og hitakostnaði ásamt fleiri kostnaðarliðum.
„Við erum nýtt og ungt fyrirtæki og höfum verið að byggja okkur upp hægt og rólega, róðurinn var þungur í byrjun á meðan við vorum að byggja upp starfsemina en var að komast á gott skrið þegar við fáum þennan mikla skell með kórónaveirunni. Útlitið er fremur dökkt núna finnst okkur, mikið um afbókanir og húsið nánast tómt þessa dagana. Við vitum þó að það eru margir þarna úti sem þurfa á okkur að halda og vilja hafa starfsemi okkar áfram. Við höldum fast í vonina um að við komumst í gegnum þetta áfall sem veirufaraldurinn hefur skapað. Við erum þessa dagana að biðla til þeirra dýraeigenda sem vantar pössun allan sólarhringinn að koma með dýrin til okkar frekar en að setja þau í heimapössun til nákominna ættingja ef það vill hjálpa starfseminni í gegnum þessa erfiðu tíma.“
HÉR AÐ NEÐAN MÁ SVO LESA ALLT NÝJASTA TÖLUBLAÐ VÍKURFRÉTTA.