Gæðasalt úr jarðsjó af Reykjanesi
Verkefnið „Gæðasalt úr jarðsjó“ fékk styrk úr AVS-sjóðnum og Tækniþróunarsjóði árið 2011 og lauk verkefninu í desember 2012. Það er samvinnuverkefni Agna ehf., Matís og Keilis en verkefnisstjóri var Egill Þórir Einarsson. Verkefnið fólst í því að nýta hráefni og orku úr jarðsjó á Reykjanesi til framleiðslu fiskisalts og gera samanburðartilraun með söltun á Reykjanessalti og innfluttu salti.
Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er þekkt fyrir efnaríkan jarðsjó og þegar Hitaveita Suðurnesja reisti þar jarðvarmavirkjun árið 2007 sköpuðust aðstæður til efnavinnslu úr jarðsjó sem fellur til við virkjunina. Úr því affallsvatni sem til fellur í dag má framleiða um 300 þús. tonn af natríum klóríði, 35 þús. tonn af kalíum klóríði og 57 þús. tonn af kalsíum klóríði. Auk þess falla til 8500 tonn af kísli sem mögulegt er að nýta til framleiðslu fellds kísils.
Um 50 þús. tonn af fiskisalti eru flutt til landsins árlega, einkum sjávarsalt frá Miðjarðarhafslöndunum. Gallar hafa komið fram við saltfiskframleiðslu vegna málma í innflutta saltinu sem valda gulnun í saltfiski og hefur fjölfosfat verið notað sem hjálparefni í salti til að koma í veg fyrir gulnun. Heildargjaldeyriskostnaður vegna innflutts salts og fjölfosfats er um 1,5 milljarður króna en heildarverðmæti saltfiskafurða eru um 30 milljarðar króna. Notkun á salti frá Reykjanesi við pækil- og stæðusöltun gæti leyst vandamál framleiðenda, þar sem saltið er hreinna og hægt að stýra samsetningu þess, bæði m.t.t. efnasamsetningar og kornastærðar. Með því að nota innlent salt má því spara umtalsverðan gjaldeyri og áætlað er að hægt sé að auka verðmæti saltfisks um 5 % eða sem nemur 770 millj. með hærra verðmati framleiðslunnar.
Í verkefninu var leitast við að finna lausn á tæknilegum vandamálum sem m.a. stóðu í vegi fyrir arðvænlegri framleiðslu á fiskisalti á Reykjanesi á fyrri tímabilum. Í fyrsta lagi þurfti að leysa vandamál vegna kísilútfellinga í eimingarferli jarðsjávar. Þær valda ómældum kostnaði m.a. með því að hindra varmayfirfærslu í vamaskiptum og valda stíflum í búnaði. Í öðru lagi að framleiða gróft salt sem uppfyllir kröfur SÍF um kornastærð í fisksalti. Vegna ónógrar kornastærðar fiskisalts á fyrri tímabilum var ekki unnt að nota saltið til stæðusöltunar á saltfiski þótt það hentaði vel til pækilsöltunar. Markmið verkefnisins að framleiða 100 kg af grófu fiskisalti náðust og söltunartilraunir gáfu til kynna að gæði Reykjanesssalts væru sambærileg við innflutt salt. Gerð verður ýtarlegri grein fyrir niðurstöðum verkefnisins í skýrslu frá Matís.
Frá þessu er greint á vef Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs.