Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fyrstu Suðurnesjabjórarnir á markað
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 5. september 2020 kl. 07:47

Fyrstu Suðurnesjabjórarnir á markað

Fimm bjórtegundir bruggaðar í Litla brugghúsinu í Garðinum.

Rosmhvelingur, Nýlenda eða Steinuður gætu orðið þekkt nöfn á Suðurnesjum og jafnvel víðar. Eigendur þeirra eru alla vega bjartsýnir og stefna á að koma þeim á Íslandsmarkað á næstu vikum. Við erum að tala um nýjar bjórtegundir bruggaðar á Suðurnesjum. Í fyrsta brugghúsi svæðisins. Fyrstu Suðurnesja-bjórarnir!

Nafnið á brugghúsið hafði lengi staðið í stofnendunum. Svo þegar þeir fjárfestu í húsi í Garðinum í Suðurnesjabæ kom það. Litla brugghúsið er í húsnæði sem Litla leikfélagið í Garðinum byrjaði að byggja fyrir margt löngu síðan. Stofnendurnir eru þrír, allir með tengingu í Garðinn og heita Davíð Ásgeirsson, Markús Arnar Finnbjörnsson og Kristinn Bergsson. Þeir Davíð og Markús fóru saman á kornsuðunámskeið árið 2016 sem konur þeirra gáfu þeim og ekki löngu seinna hittu þeir Kristin sem er eins og þeir, mikill áhugamaður um bjór og bjórgerð. Hann sagðist ekki geta beðið lengur með að fara að framleiða bjór og eftir smá spjall smullu þremenningarnir saman og stofnuðu fyrirtækið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Smullu saman

„Við vorum búnir að sanka að okkur eitthvað af búnaði fyrir brugghús og byrjaðir að undirbúa þegar við hittum Kristinn á einhverri bjórhátíð,“ segja þeir Davíð og Markús og Kristinn segir að hann hafi bara heimtað að vera með. „Það er auðvitað svolítið skrýtið að fara í svona verkefni á tímum Covid en við vildum ekki bíða lengur,“ segir Kristinn sem hafði verið í svipuðum pælingum og þeir og dundað sér við iðjuna í bílskúrnum.

Góður mjöður úr Garðinum

Þar sem áhugafólk um leiklist í Garðinum hafði séð fyrir sér geymsluhúsnæði fyrir leikmuni og æfingapláss er nú snyrtileg bjórgerð. Við komuna inn í Litlu bjórgerðina taka við manni bjórdælur á standi og auglýsingatafla þar sem sjá má nöfn fimm bjórtegunda sem eru á upphafslista félaganna. Kútar og fleiri tæki til bjórgerðar eru inni í húsinu. Allt bara nokkur snyrtilegt. Ekki mikil bjórlykt en smá. Auk fyrrnefndra nafna má sjá kunnugleg nöfn sem tengjast svæðinu á töflunni, Nýlenda og Keilir en það síðasta er líka skemmtilegt; Gaurinn. Víkurfréttamenn fengu að smakka og félagarnir sötruðu aðeins líka. Dómnefnd Víkurfrétta gaf bjórunum góða einkunn. En hvernig velur maður bjórtegundir og hvað tekur þetta langan tíma?

Keilir uppseldur

„Möguleikarnir eru margir og við erum búnir að setja Keilisbjórinn í prufukeyrslu á kránni Paddy’s í Keflavík. Honum var vel tekið sem var ánægjulegt og við kláruðum það sem við áttum af Keili. Næsta framleiðsla verður tilbúin eftir tvær vikur,“ segja þeir félagar og jánka því þegar þeir eru spurðir hvort þeir hafi ekki bara gúgglað bjórtegundir í upphafi. „Maður þarf bara að prófa sig áfram. Möguleikarnir eru endalausir. Jú, jú, við gúggluðum eitthvað fyrst og svo fengum við upplýsingar á kornsuðunámskeiðinu. Það er mjög gaman að grúska í þessu en þetta er auðvitað bara áhugamál. Við erum allir í öðrum störfum,“ segja þeir Davíð og Markús sem voru búnir að skoða þetta í dágóðan tíma þar til þeir hittu Kristinn en þeir kappar eru allir Garðmenn með sterka tengingu í bæjarfélagið.

„Þetta er kannski dýrt áhugamál. Við sjáum ekki fram á að verða ríkir af þessu. Við keyptum þetta hús og þá var hægt að byrja og það var í júníbyrjun í sumar. Það tekur um það bil tvær vikur að klára bruggun á einni tegund og við vonumst til að komast í vínbúðirnar fljótlega. Við erum einnig í tengingu við Bjórland sem er nýr aðili á markaðinum,“ segir Kristinn.

Suðurnesjanöfn á bjór

Nöfnin á bjórunum eru áhugaverð og tengjast Garðinum og Suðurnesjum. Þeir sögðust vilja halda uppi sögunni og tengingu við svæðið, fóru í bækur og lögðu svo hausinn í bleyti. Rosmhvalanes og Steinunn landnámskona fá sinn hvorn bjórinn, Rosmhveling og Steinuði. Nýlenda er þekkt bæjarheiti í Garði sem Kristinn tengist og svo er Keilir auðvitað þekktasta fjall Suðurnesja. Alvöru Suðurnesjafjall fær auðvitað sinn bjór. Gaurinn er fimmta nafnið og er út í loftið. Rosmhvelingur er ljós bjór og 4,5% en hinir eru yfir 5%, Keilir og Gaurinn 5,6%.

Stefna yfir þúsund lítra

„Við erum með leyfi til að framleiða þúsund lítra á mánuði og stefnum að því að fara yfir það. Við stefnum að því að vera komnir með bjóra í sölu eftir um tvær vikur. Við erum bjartsýnir og höfum fengið viðbrögð frá fjölskyldumeðlimum og vinum sem hafa smakkað og verið að prófa með okkur. Litla brugghúsið verður vonandi skemmtileg viðbót í ferðaþjónustuflóruna á Suðurnesjum. Við eigum eftir að gera þetta húsnæði huggulegt þannig að fólk geti komið hingað og átt góða stund í bjór-smökkun en við munum líka bjóða upp á gott kaffi og einhverjar veitingar. Litla brugghúsið verður vonandi lítil ölstofa sem fólk vill koma í og eiga góða stund með vinum eða starfsfélögum,“ sögðu þeir þremenningar, Davíð, Markús og Kristinn.

Nöfnin á bjórunum eru áhugaverð og tengjast Garðinum og Suðurnesjum. Markús, Davíð og Kristinn lyfta glösum.

Markús, Davíð og Kristinn í Litla brugghúsinu.

Kristinn dælir á prufuglös í Litla brugghúsinu.