Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fyrsta Marriott-hótelið á Íslandi bíður eftir fyrstu gestunum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 21. apríl 2020 kl. 17:41

Fyrsta Marriott-hótelið á Íslandi bíður eftir fyrstu gestunum

Suðurnesjaverkefni af bestu gerð, segir Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs ehf.

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri og skemmtilegt verkefni. Við erum hér með tilbúið 150 herbergja flugvallarhótel með veitingastað og bar og hlökkum til að taka á móti gestum á fyrsta Marriott-hótelinu á Íslandi,“ segir Ingvar Eyfjörð sem fer fyrir fasteignaþróunarverkefninu Aðaltorgi ehf. í Reykjanesbæ.

Nýtt Courtyard by Marriott-hótel hefur risið efst á Aðalgötu í Keflavík undanfarið eitt og hálft ár, við gatnamót Reykjanesbrautar, þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar blasir við. Það er einmitt Keflavíkurflugvöllur sem er stór þáttur í því að Ingvar og Rósa Ingvarsdóttir, móðursystir hans, ákváðu að láta slag standa undir merkjum fyrirtækisins Álftavík og fjárfesta með samfélagslegri áherslu. Út frá því gildismati fjárfesti félagið ásamt fleiri fjárfestum í Alex Guesthouse og þróaði þaðan samfélagsverkefnið Aðaltorg. Álftavík er fjárfestingar- og þróunarfélag og er leitt af Rósu sem er framkvæmdastjóri þess og núverandi fjármálastjóri Aðaltorgs ehf. Rósa hefur viðamikla reynslu úr verktakavinnu og starfaði hún hjá verktakafyrirtækinu Atafli í fimmtán ár, m.a. sem forstöðumaður fjármálasviðs félagsins. Ingvar, sem er menntaður sjávarútvegsfræðingur, hefur verið viðloðandi fisksölu til útlanda og starfaði í sjávarútvegsgeiranum um árabil. Eftir að Ingvar kom heim frá Þýskalandi ákváðu þau frændsystkinin að leiða saman hesta sína og leita tækifæra á Suðurnesjum sem þau vildu að væri ígildi samfélagsverkefnis. Úr varð að setja í gang uppbyggingu verslunar- og þjónustutorgs. Stefnan var sett á að byggja m.a. flugvallarhótel í móanum skammt frá flugvellinum og fá tengingu við stóra alþjóðlega hótelkeðju. Markmiðið var ekki bara að byggja upp arðbært fyrirtæki heldur skyldi samfélagið í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum líka njóta ávinnings af því. 

„Verðið að vanda ykkur“

Eftir allnokkra leit að áhugaverðum fyrirtækjum eða kauptækifærum í fyrirtækjum duttu þau niður á Alex-gistiheimilið og keyptu það síðan af Guðmundi Þ. Einarssyni og fjölskyldu. Sonur Guðmundar, Einar Þór, var síðan ráðinn til þeirra í hótelverkefnið enda með góða reynslu úr þeim geira í farteskinu og stýrir viðskiptarþróun í Aðaltorgi ehf. „Við Rósa horfðum á móann hérna fyrir ofan Alex-bygginguna og fljótlega kom þessi Aðaltorgs hugmynd upp. Við settum upp viðskiptaáætlun og kynntum hana fyrir mörgum aðilum en náðum ekki miklum árangri til að byrja með. Aðilar sem við leituðum til höfðu ekki mikla trú á svæðinu okkar en við fengum svo góðan frumfjárfesti sem ég hef unnið mikið með og fyrir og hann kolféll fyrir hugmyndinni hér í móanum. Hann samþykkti að ganga til liðs við okkur en sagði síðan þegar við stóðum úti í móanum: „Þetta svæði hefur ekki verið snert síðan Ingólfur Arnarson nam land og þið verðið að vanda ykkur.“ „Við vorum sammála því,“ segir Ingvar og bætir við að í framhaldinu hafi hjólin farið að snúast og fleiri öflugir fjárfestar gengið til liðs við hópinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bensínstöð dregur fólk á staðinn

Ingvar segir að í fyrsta fasa af þremur hafi verið að fá eldsneytisafgreiðslu á svæðið. Slík þjónusta dragi marga inn á torgið. Það hafi gengið fljótt og vel fyrir sig með samningum við Olís sem opnaði sjálfsafgreiðslustöð árið 2017 en hún varð fljótt ein sú stærsta hjá fyrirtækinu. Í öðrum fasa í uppbyggingu Aðaltorgs var bygging hótels og í þriðja fasa verður frekari uppbygging smávöru- og matvöruverslunar á torginu. 

Rósa og Ingvar sáu strax mikla möguleika fyrir verkefnið með því að tengjast stórri alþjóðlegri hótelkeðju. Þau höfðu samband við allar helstu hótelkeðjurnar í heiminum og fengu svar frá nærri öllum og völdu Marrriott. Þau fengu síðan erlendan ráðgjafa til að hanna þessa framtíðarsýn sem nú er byggt á. Ingvar segir að sá ferill hafi verið mjög áhugaverður. 

Flugborg framtíðarinnar

„Við erum komin með þessa byggingu inn í þetta hverfi sem núna er miðsvæðis í flugborg framtíðarinnar við alþjóðlegan flugvöll. Við sáum fyrir okkur þetta torg, Aðaltorg eins og fyrirtækið heitir, með hótel, verslanir og þjónustu sem tengist ferðamönnum og nærsamfélaginu. Markmiðið var ekki að horfa til þriggja til fimm ára heldur til áratuga um það hvernig þetta svæði kemur til með að þróast. Í útlöndum er mikil uppbygging í kringum flugvelli, í nágrenni við þá. Við höfum þá trú að það muni eiga sér stað við Keflavíkurflugvöll.“

Þegar Ingvar er spurður út í hótelkeðjuna sem þau eru í samstarfi við segir hann að Marriott sé fyrirtæki af annarri gerð, þar ríki mikill agi og strangar kröfur séu gerðar. „Það er gaman að standast þær, standast þennan vörumerkjastaðal Marriott sem er gegnumgangandi í hótelrekstri keðjunnar og sést best á þjónustu þess og gæðum. Þeir hafa komið á óvart með innkomu sinni og eru mjög nánir verkefninu sem er frábært.“

Hagstæð byggingaraðferð

„Við erum með frábæran hóp hluthafa sem, ásamt Landsbankanum, hafa staðið þétt við bakið á okkur og hafa mikla trú á verkefninu. Þetta er þróunarverkefni og við byggjum með nýrri einingarlausnaaðferð. Herbergin komu í 78 stáleiningum með skipi til Helguvíkur síðasta sumar frá Kína eftir 20 þúsund km. langt ferðalag og var skipað upp á mettíma. 

Byggingin er stálgrindarhús byggt með nýrri tækni, byggingaraðferðin er hagstæðari en sú hefðbundna og tekur skemmri tíma í framkvæmd. „Við erum búin að vera um eitt og hálft ár að þessu og ótrúlega áhugavert að sjá bygginguna rísa á þremur dögum. Við vorum auðvitað búin að undirbúa vandlega reisinguna áður en herbergin komu á svæðið. Einingunum var síðan raðað upp á milli þriggja turna sem búið var að byggja. Það var magnað. Við erum byggja hér upp móann og erum að hefja nýja vegferð í flugvallarborginni.“

Frábær samheldni

Samstarfsaðilar, verktakar og starfsfólk, ásamt fleiri aðilum, hafa staðið saman í þessu skemmtilega verkefni í um eitt og hálft ár. Ingvar segir að margt hafi komið upp í verkefninu sem sé hvergi nærri lokið. Hann lofar bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ fyrir frábært samstarf og skilning. „Þar sem þetta er samfélagsverkefni lögðum við mikla áherslu á að fá til liðs við okkur fyrirtæki og starfsfólk á Suðurnesjum og það hefur gengið mjög vel. Undir styrkri stjórn ÍAV þjónustu hafa hér verið 60 til 100 iðnaðarmenn við störf undanfarna mánuði. Samheldnin hefur verið mögnuð. Það hafa allir haft trú á verkefninu og tekið lausnamiðað á þeim áskorunum sem upp hafa komið. Stemmningin og andinn á svæðinu og í verkefninu hefur verið meiriháttar. Þetta er Suðurnesjaverkefni af bestu gerð,“ segir Ingvar.

Mikilvæg tenging með Marriott 

Aðspurður um hvort framboð af hótelgistingu á Suðurnesjum sé komið í hámark segir Ingvar svo ekki vera. Hann hefur trú á því að hvert hótel sem byggt er stækki kökuna. „Ég hef mikla trú á því að þegar allt verður komið á fullt skrið verði tækifæri fyrir enn fleiri hótel. Markaðurinn er hvergi nærri mettur. Við munum til dæmis í tengingu við Marriott fá gesti sem við hefðum ekki annars fengið. Marriott er stærsta hótelkeðja í heiminum og þeirra velvildarkerfi er stærsta í heiminum með 140 milljónir manna meðlima undir merkjum Marriott Bonvoy. Það er gríðarleg landkynning að tengjast því og stórkostlegt tækifæri fyrir okkur og landið.“

Ingvar segir að ekkert í nýja hótelinu sé þeim óviðkomandi. „Það hefur oft verið erfitt að uppfylla þeirra kröfur en Marriott er með skoðanir á smáum sem stórum hlutum sem kallar á mikinn aga. Í fullu trausti höfum við farið eftir þessu og uppfyllt þeirra ströngu kröfur. Forráðamenn Marriott eru mjög sáttir með okkur.“

Alvöru „Angus“ hamborgari er alls staðar á matseðli á Marriott.

Framtíð Reykjanessins björt

Ingvar hefur mikla trú á Reykjanesinu sem ferðamannastað og segir það óuppgötvaðan demant. „Við fáum gríðarlegan fjölda í Bláa lónið en það fólk stoppar ekki nógu oft eða nógu lengi hér. Ferðaþjónustan á Reykjanesi er búinn að slíta barnsskónum en hún á mikið inni. Við eigum eftir að sjá miklar breytingar í framtíðinni og eigum eftir að færa ferðaþjónustuna á annað stig. Blái demanturinn er verkefni sem við tökum þátt í og innan hans eru ferðir á milli stórbrotinna ferðamannastaða á litlu svæði á Reykjanesskaganum. Hér eru magnaðar náttúruperlur og því er framtíð svæðisins björt.“

Við spyrjum Ingvar að lokum út í veirutímann. Hvernig það sé að vera með tilbúið hótel þegar gestirnir sjást hvergi. 

„Upplifunin er sérstök og má segja að Palli sé svo sannarlega einn í heiminum á göngum hótelsins í dag. Þegar COVID-storminum lægir þarf Palli hins vegar að vera tilbúinn fyrir mikinn og góðan félagsskap. Við munum fara í gegnum þetta og við Íslendingar tökum á COVID með eftirtektarverðum hætti undir stjórn þríeykisins.“

Fyrstu gestirnir áttu að hefja tveggja vikna dvöl 14. apríl. Búið var að panta hvert einasta herbergi undir varnaræfinguna Norður-Víking sem ekkert varð af vegna COVID-19. En hvenær á hann von á fyrstu gestunum?

„Þeir koma vonandi fljótlega og gætu orðið Íslendingar. Ég held að Íslendingar sem og aðrir eigi eftir að njóta þess að koma á fyrsta Marriott-hótelið á Íslandi, gista í góðum herbergjum, fá veitingar á flottum veitingastað og drykki á skemmtilegum bar. Við hlökkum til. Eitt af markmiðunum í þessu verkefni er jafnframt að leiða ferðamenn niður í bæinn okkar hvort sem það eru erlendir eða innlendir ferðamenn. Við höfum fulla trú á því að það gangi eftir enda hefur bærinn upp á margt áhugavert að bjóða,“ sagði Ingvar Eyfjörð.

Hjörleifur Stefánsson hjá Nesraf á spjalli við Ingvar Eyfjörð á nýja hótelinu.


Fyrirtæki í eigu Suðurnesjamanna hafa verið í framlínu byggingu hótelsins. Þau eru m.a.:
ÍAV þjónusta, Nesraf, Lagnaþjónusta Suðurnesja, Ellert Skúlason, Pétur Bragason, Sparri, Verkmálun, ODJ en hönnuðir hótelsins eru Arkís arkitektar og verkfræðistofan Verkís.

 

Liðsfélagar í Aðaltorgi eru:

Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri

Rósa Ingvarsdóttir, fjármálastjóri

Einar Þór Guðmundsson, viðskiptaþróun

Adam Calicki, verkfræðistjórnun

Alexander Ragnarsson, umsjónarmaður fasteigna

Nýtt Marriott hótel í Reykjanesbæ