Fyrsta handverksbrugghús Keflavíkur fjármagnað
– Fá framleiðslulínu frá Þýskalandi og áætla að framleiða 100.000 lítra af bjór á ári
Félagarnir Björgvin Ívar og Ragnar Aron á Paddy’s hafa lengi talað um að opna brugghús í Keflavík. Þeir hafa nú tryggt fjármagn sem dugar fyrir kaupum á fullbúinni bruggverksmiðju sem yrði með þeim stærri af handverksbrugghúsum landsins.
„Við bjuggum báðir erlendis og höfum ferðast mikið saman og skipulega heimsótt sem flesta brugghúsbari – þessa þar sem bjórinn er bruggaður á staðnum, stóru tankarnir sýnilegir, mikið úrval og öll sú stemmning,“ segir Björgvin Ívar Baldursson í samtali við Víkurfréttir um fyrirhugað brugghús í Keflavík.
„Fyrsta skrefið í þessu var líklega þegar við, með skömmum fyrirvara, ákváðum að skella okkur á miðri Ljósanótt 2017 í bruggskóla til Kaupmannahafnar. Tvær lotur með árs millibili kynntu heldur betur upp í áhuganum og við tökum margt úr þessu námi með okkur inn í verkefnið,“ segir Björgvin Ívar.
Eftir að hafa svo ferðast mikið innanlands í ár og séð þessa bari komna víðs vegar um landið fór bruggbakterían að grassera alvarlega hjá þeim félögum. „Nú eru flottir brugghúsbarir í Vík í Mýrdal, í Vestmannaeyjum og á Breiðdalsvík svo eitthvað sé nefnt þannig það er eiginlega ótrúlegt að við séum ekki komin með almennilegt brugghús í þetta 20.000 manna bæjarfélag,“ segir Björgvin Ívar jafnframt.
Aðspurður segir hann að þeir félagar hafi tryggt fjármagn sem dugar fyrir kaupum á fullbúinni verksmiðju sem yrði með þeim stærri af handverksbrugghúsum landsins. Nú eru í gangi viðræður við birgja en þeir Björgvin og Ragnar ætla að taka inn framleiðslulínu frá Þýskalandi sem samanstendur af 500 lítra sjálfvirkum suðupotti sem sér um allt bruggferlið frá meskingu til suðu og gerjunar í tönkum.
„Átöppunarlínuna pöntum við frá Bandaríkjunum en okkur er mikið kappsmál að koma framleiðslunni í dósir við fyrsta tækifæri. Bæði er dósin léttari og því ódýrari og umhverfisvænni kostur þegar kemur að flutningi og dósin stendur sig mun betur í að útiloka bragðmengun en glerið. Glerflaskan getur bæði hleypti inn sólarljósi og súrefni en það tvennt gerir bjórnum enga greiða. Þegar fyrsta fasa vöruþróunar er lokið áætlum við að framleiða auðveldlega 100.000 lítra fyrsta árið og geta stækkað hratt og örugglega þegar og ef aðstæður leyfa,“ segir Björgvin Ívar.
Staðsetning brugghússins er ekki enn ákveðin en þeir félagar hafa úr nokkrum góðum staðsetningum að velja.
„Við erum ekki einir í þessu en með okkur í verkefni eru góðir og sannir Keflvíkingar sem allir deila ástríðu fyrir því að gera eitthvað skemmtilegt fyrir mannlífið og ferðaþjónustuna í bæjarfélaginu. Á tímum sem þessum er gaman að fá að taka þátt í atvinnu- og nýsköpun af þessu tagi á svæði sem hefur heldur betur lent undir í þeim málunum á síðustu mánuðum,“ segir Björgvin Ívar Baldursson í samtali við Víkurfréttir.