Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fyrsta flug Icelandair til Manchester í dag
Föstudagur 7. apríl 2006 kl. 11:01

Fyrsta flug Icelandair til Manchester í dag

Ný flugleið til og frá landinu verður opnuð kl. 17.30 í dag með fyrsta áætlunarflugi Icelandair til Manchester í Englandi. Flogið verður tvisvar í viku, á föstudögum og mánudögum, með Boeing 757 þotum félagsins sem taka 189 farþega. Bókanir fyrir sumarið lofa mjög góðu og uppselt í fyrstu ferðina.

„Við erum með þessu flugi að sækja af enn auknum krafti inn á ferðamannamarkaðinn í Bretlandi og um leið að opna Íslendingum nýja leið inn á mjög spennandi svæði", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Öflugt markaðsstarf Icelandair í Bretlandi á undanförnum árum og áratugum hefur gert það að verkum að ferðamannafjöldinn þaðan hefur þrefaldast frá 1995 eða á einum áratug. Við höfum flogið til og frá London og Glasgow lengi og nú bætum við þriðja staðnum við. Manchester er miðpunktur í mjög
þéttbýlu svæði með álíka marga íbúa og Danmörk, Noregur og Svíþjóð samanlagt, og flugtíminn til Íslands er aðeins tvær og hálf klukkustund.
Markaðsrannsóknir okkar gefa okkur væntingar um að Manchesterflugið verði góð viðbót við London og Glasgow,“ segir Jón Karl

„Við gerum líka ráð fyrir að borgin og svæðin í kring heilli Íslendinga. Manchester er frábær verslunar og skemmtiborg. Næturlífið þar er margrómað og ódýrt og gott að versla þar. Bítlaborgin Liverpool, sem er skammt frá, er einnig mjög áhugaverður áfangastaður. Þar er Bítlasafn og borgin er nýútnefnd Menningarborg Evrópu 2008 og því er mikið uppbyggingarstarf þar. Á næstu grösum er svo vatnasvæðið stórkostlega, Lake District, sem er helsta náttúruperla Englands. Síðast en ekki síst er Manchester fræg fyrir fótbolta. Ekkert svæði í Englandi er með fleiri lið í efstu deild en norð-vestur England. Allir þekkja Manchester United og Manchester City , en Liverpool-liðin Everton og Liverpool eru einnig á þessu svæði auk úrvalsdeildarliðanna Bolton, Blackburn og Wigan, að ógleymdu Íslendingaliðinu Stoke City," segir Jón Karl.

Í stuttri athöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við brottför flugsins klukkan 17.00 afhenda Jón Karl og Gunnar Már Sigurfinnson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair, (íklæddir keppnistreyjum Manchester-liðanna) öllum farþegum í fyrsta fluginu miða á Manchester-tónleika sem haldnir verða í
Laugardalshöllinni 6. maí næstkomandi, þar sem tónlistarmenn frá borginni munu leika. Gunnar Guðjónsson er flugstjóri í fluginu og Björg Jónasdóttir er fyrsta flugfreyja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024