Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Fyrsta áfanga við endurnýjun á fríhafnarsvæði FLE lokið
Myndir teknar í Mathusi og Loksins Bar. Myndirnar tók Ozzo Photography
Þriðjudagur 10. mars 2015 kl. 11:18

Fyrsta áfanga við endurnýjun á fríhafnarsvæði FLE lokið

Fyrsta áfanga við endurnýjun á verslunar- og veitingasvæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er lokið með opnun tveggja nýrra veitingastaða og einnar verslunar. Framkvæmdir á svæðinu munu halda áfram og verða lokið í áföngum fram í miðjan maí n.k.

Tveir nýir veitingastaðir, Mathús og Loksins Bar, hafa tekið til starfa. Báðir leggja þeir áherslu á að skapa íslenskt andrúmsloft og komu margir íslenskir hönnuðir að hönnun þeirra. Mathús verður stærsti veitingastaðurinn á svæðinu og mun bjóða upp á fjölskylduvænan mat. Loksins Bar leggur áherslu á íslenskan bjór og hefur yfir 30 bjórtegundir frá íslenskum brugghúsum á boðstólum. Þá hefur Optical Studio opnað verslun sína á nýjum stað en verslunin hefur verið í flugstöðinni í 16 ár. Optical Studio útbýr gleraugu á 15 mínútum fyrir farþega ásamt því að bjóða upp á sjónmælingar, kontaktlinsur, viðgerðir á gleraugum, sólgleraugu ofl. Eymundsson mun svo opna endurbætta verslun á nýjum stað í vikunni.

Sex verslanir og einn veitingastaður, sem áður voru á svæðinu, voru valin í forvali til þess að halda áfram rekstri en við bætast tvær nýjar verslanir og fjórir veitingastaðir. Verslanirnar 66°N, Bláa Lónið, Elko, Eymundsson, Optical Studio og Rammagerðin munu allar halda áfram starfsemi í flugstöðinni. Við bætast tískuvöruverslun með þekkt erlend vörumerki ásamt íslenskri hönnun og sælkeraverslunin Nord.  Fjórir nýir drykkjar- og matsölustaðir opna á fríhafnarsvæðinu, staðirnir Mathús , Loksins bar, Segafredo og Joe and the Juice.

Íslensk hönnun og íslenskt hráefni voru leiðarljósið í allri hönnun á nýju fríhafnarsvæði sem og í vali á rekstraraðilum. Þess var krafist af öllum rekstraraðilum að þeir hefðu íslenska tengingu í vöru sinni eða þjónustu.

Endurhönnun flugstöðvarinnar og útboð verslunar-og veitingasvæðis var nauðsynlegt til þess að mæta auknum farþegafjölda á flugvellinum en um fjórar milljónir farþega fóru um flugvöllinn árið 2014. Breytingarnar og uppbyggingin munu fjölga störfum á Keflavíkurflugvelli verulega sem og auka tekjur á fríhafnarsvæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024