Fríhöfnin stækkar komuverslunina
Fríhöfnin ehf. hefur tekið í notkun nýja verslun í komusal flugstöðvarinnar. Verslunin hefur verið stækkuð um 460 m2 frá því sem áður var og er nú orðin 1.000 m2 að stærð.
„Stækkun verslunarinnar er algjör bylting frá því sem var. Nú er hægt að gefa hverjum vöruflokki fyrir sig nægilegt rými og bæta útstillingar á vörum. Við höfum meðal annars aukið úrval snyrtivara, sem eru nú sér deild í versluninni. Við erum mjög ánægð með hvernig til hefur tekist og vonum að viðskiptavinir taki breytingunni vel", segir Sturla Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf. á heimasíðu flughafnarinnar.
Kostnaður við nýja verslun er um 24 milljónir króna. Innréttingar voru keyptar frá austurríska framleiðandanum Umdasch, Arkís ehf. arkitektar og ráðgjöf sáu um innanhússhönnun og Ístak um uppsetningu innréttinga.
Við tilfærslu komuverslunar myndaðist aukið rými í móttökusal flugstöðvarinnar fyrir farþega og stækkun farangursfæribanda. „Salurinn var hættur að anna álagstoppum þegar margar vélar komu inn í einu. Við tilfærslu komuverslunar gátum við stækkað tvö af þremur færiböndum um leið og meira gólfpláss myndaðist fyrir farþega. Einnig gaf það okkur svigrúm til að bæta aðstöðu fyrir tollafgreiðslu í salnum,” segir Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf.á heimasíðunni.
Stækkun komuverslunarinnar og tilfærsla er fyrsti hluti af stækkun flugstöðvarbyggingarinnar til suðurs, en byggingin verður stækkuð alls um 6.000 fermetra á tveimur hæðum. Áætlað er að framkvæmdum ljúki árið 2006.
Texti: Airport.is
VF-myndir/Þorgils