Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Friðrik kaupir Travel East
Friðrik Árnason hótel- og ferðaskrifstofueigandi. Mynd: Austurfrétt
Mánudagur 21. desember 2015 kl. 18:49

Friðrik kaupir Travel East

– Vill auka ferðamennskuna á Austurlandi utan háannatímans

Njarðvíkingurinn Friðrik Árnason, eigandi Hótels Bláfells á Breiðdalsvík, hefur keypt ferðaskrifstofuna Travel East. Hann segir litlar breytingar framundan á fyrirtækinu en markmiðið sé að efla ferðamennsku utan háannatíma. Austurfrétt greinir frá þessu.

„Við ætlum okkur að skerpa áherslur og efla reksturinn. Þetta er flott fyrirtæki og hefur fest sig í sessi sem ferðaskrifstofan á Austurlandi fyrir erlenda ferðamenn. Við vonum að eina breytingin verði sú að það verði meira að gera," segir Friðrik í samtali við Austurfrétt.

Heiður Vigfúsdóttir og Magnfríður Ólöf Pétursdóttir stofnuðu fyrirtækið upphaflega undir nafninu Austurför. Þær hverfa nú frá Travel East en halda áfram rekstri undir íslenska heitinu og sjá meðal annars um tjaldsvæðið á Egilsstöðum.

Friðrik segir að mikil samvinna hafi verið milli Bláfells og Travel East og séu kaupin rökrétt framhald af því. Hann segir tækifæri í vaxandi ferðamennsku á Austurlandi.

„Við höfum byggt mikið upp í Breiðdal og kaupin eru því eðlilegt framhald til að loka heildarmyndinni.

Við þurfum að bjarga okkur sjálf til að sækja ferðamenn utan háannatíma. Það hefur mikið að gera á Suðurlandi og Vesturlandi en ekki nóg á Austurlandi.

Þetta er flott fyrirtæki sem getur nýst til að bjóða upp á flotta og fjölbreytta afþreyingu fyrir ferðamenn og auka nýtingu á þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í gistirými í fjórðungnum,“ segir Friðrik Árnason.

Kaupverðið er ekki gefið upp.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024