Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Framtíðin er mýkri undir tönn
Föstudagur 13. október 2006 kl. 13:51

Framtíðin er mýkri undir tönn

Klúbbur matreiðslumeistara heimsótti Þorbjörn hf. á dögunum í Grindavík og fékk hópurinn vænlega smakk- og skoðunarferð um fyrirtækið. Fulltrúar frá Þorbirni leiddu gesti í gegnum framleiðsluferli saltfisksins og þá sátu gestir einnig fyrirlestur frá forstjóra Þorbjarnar, Eiríki Tómassyni.

Matreiðslumeistararnir fengu svo að bragða á hinum ýmsu saltfiskréttum og gefa þeim einkunn en fyrir þá var lagður saltfiskur sem verkaður var samkvæmt gömlu aðferðinni, fiskur verkaður eftir nútímaaðferð og síðast en ekki síst fékk matreiðslumeistarahópuinn nasaþefinn af framtíðinni. Var þá borinn á borð saltfiskur framtíðarinnar sem vakti mikla lukku að sögn Einar Lárussonar, þróunarstjóra hjá Þorbirni hf.

„Saltfiskur framtíðarinnar er mýkri undir tönn en annar saltfiskur en við buðum einnig upp á svartan saltfisk í forrétt,“ sagði Einar í samtali við Víkurfréttir. „Svarti saltfiskurinn vakti mikla athygli og það hreyfði enginn við diskunum fyrr en ég sagði þeim hvernig þetta væri gert,“ sagði Einar en hann fékkst ekki til að gefa upp nákvæma verkunaraðferð fyrir saltfisk framtíðarinnar en sagði þó að þessi nýja framleiðsluvara hjá Þorbirni væri nú í smökkun og prufum um heim allan.

Saltfiskur framtíðarinnar verður því mýkri undir tönn en sá er við þekkjum nú og verður hægt að velja um hin ýmsu litaafbrigði en matreiðslumeistararnir fengu m.a. að bragða á svörtum, gulum og rauðum saltfisk.

Vf-mynd/ www.thorfish.isMatreiðslumeistararnir sitja við litskrúðuga diskana.

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024