Framleiðir vinsælar sápur úr eldfjallagjósku og fjallagrösum
Eitt best lyktandi fyrirtækið á Suðurnesjum hefur hreiðrað um sig á Ásbrú. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gaf út stafsleyfi vegna sápugerðar í frumkvöðlasetrinu í Eldey að Grænásbraut 506 í Reykjanesbæ í byrjun mars sl. Fyrirtækið Sápan er nú flutt þangað með sápugerðina sína og mun þar einnig hafa aðgang að góðum sölum til námskeiðahalds. Sápan verður því hér eftir með alla starfsemi sína í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú en áður var fyrirtækið rekið sem heimilisiðnaður í Innri Njarðvík.
Það er Ólafur Árni Halldórsson, grafískur hönnuður, sem rekur Sápuna og er eini starfsmaður fyrirtækisins. Þegar Ásbrúarblaðið tók hús á honum í Eldey, var hann að rífa mótin utan af sápustykkjaframleiðslunni þann daginn. Ekki er um verksmiðjuframleiðslu að ræða og hver hræra gefur af sér um 100 sápustykki. Mikil handavinna er á bak við framleiðsluna og engar vélar koma nálægt framleiðslunni ef undan er skilinn forláta töfrasproti sem er notaður til að hræra sápublönduna í potti. Annars er allt unnið í höndum og sápumótin og önnur áhöld hefur Ólafur Árni smíðað sjálfur.
Sápugerð er svo sem ekkert ólík kertagerð. Eftir að hafa blandað réttu blönduna er henni komið í mót þar sem hún storknar í sólarhring. Þá er mikilvægt að skera sápuna í réttar stærðir af sápustykkjum. Þá tekur við ákveðið þroskaferli hjá sápunni, ekki ósvipað og hjá ostum, sem tekur mánaðartíma áður en henni er pakkað í neytendapakkningar.
Nokkrar sápur eru vinsælli en aðrar og þar trónir gjóskusápa á toppnum en hún inniheldur gosefni úr eldgosum í Eyjafjallajökli og úr Grímsvatnagosinu. Þá njóta víkingasápur einnig vinsælda. Þær innihalda íslensk fjallagrös. Þá býður Ólafur Árni einnig upp á sápur í þæfðri ull, bæði í skrautlegum litum og einnig í sauðalitunum. Fjölmargar aðrar sápur eru einnig í vörulínunni og sumar árstíðabundnar eins og jólasápa. Þá framleiðir fyrirtækið sápu sem unnin er úr repju frá Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og er sú sápa seld á þessu þekkta býli á Suðurlandi.
Ólafur Árni framleiðir ekki bara sápur, því hann heldur einnig reglulega námskeið í sápugerð og býður upp á margt til sápugerðar, s.s. ilmolíur og fleira. Hann selur líka sápur sem hægt er að bræða og móta að vild án þess að kunna neitt fyrir sér í sápugerð. Sápur sem hægt er að föndra með eftir hugmyndaflugi hvers og eins. Nú er hægt að föndra með sápur í leikskólum og grunnskólum. Alls staðar þar sem föndra á saman. Sápugerð er skemmtileg tilbreyting frá pappírsföndri. Það er gaman t.d. að móta sérstaka sápu fyrir jólin eða páskana. Sápu sem ilmar svo vel að ekki er hægt annað en fyllast af hátíðargleði. Ólafur Árni segir þetta frábært fyrir þá sem kenna myndmennt, hönnun, smíði og heimilisfræði í grunnskólunum. Þeim sem vilja reyna sápugerð stendur til boða að kaupa hér efni sem nauðsynleg eru. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 618-7272. Þá má senda fyrirspurnir á [email protected].
Myndin: Ólafur Árni Halldórsson við sápugerðina.