FRAMKVÆMDIR VIÐ ÍÞRÓTTAHÚSIÐ GANGA VEL
Framkvæmdir við fjölnota íþróttahús í Reykjanesbæ ganga vel. Iðnaðarmenn eru byrjaðir að slá upp steypumótum fyrir sökkul hússins þó svo jarðvinnu sé ekki lokið. Þá var byrjað að steypa fyrir helgi. Umfang framkvæmdarinnar hefur ekki farið framhjá þeim sem leið hafa átt um bæinn. Risastórt moldarfjall við Flugvallarveg hefur einnig vakið athygli. Það efni sem þar hefur verið hrúgað upp verður notað með hliðum byggingarinnar þegar hún hefur risið. Meðfylgjandi mynd var tekin í gærdag og sýnir iðnaðarmenn að störfum og í baksýn má sjá jarðvinnu í fullum gangi. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson