Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

  • Frá Reykjanesbæ í verslunarrekstur á Reykhólum
    Búðin á Reykhólum. Myndir af vef Reykhóla.
  • Frá Reykjanesbæ í verslunarrekstur á Reykhólum
    Nýja Reykhólafólkið: Ása og Reynir Þór.
Föstudagur 20. febrúar 2015 kl. 09:51

Frá Reykjanesbæ í verslunarrekstur á Reykhólum

Þau Reynir Þór Róbertsson og Ása Fossdal, búsett í Reykjanesbæ, stefna að því að opna verslun á Reykhólum. Verslunarrekstur lagðist af á Reykhólum á síðasta ári. Frá þessu er greint á vef Reykhóla. Reynir Þór og Ása eru vel kunnug rekstri verslana og bærilega reynd á þeim vettvangi.

„Ég hef verið verslunarstjóri í húsgagnaverslun hérna í Keflavík allt frá tvítugu, eða í tuttugu og tvö ár. Ása rak sína eigin snyrtivöruverslun og förðunarskóla í fimm ár og síðan aðstoðaði hún mig sem verslunarstjóri í níu ár,“ segir Reynir Þór við vef Reykhóla.

Aðspurður hvort þau eigi einhver tengsl við héraðið hér vestra segir Reynir Þór svo ekki vera. „Nei, engin tengsl, við komum á Reykhóla í fyrsta skipti núna fyrir stuttu til að skoða málin. Okkur leist vel á þetta og okkur langar að prófa eitthvað nýtt.“

Börn þeirra eru fjögur, tvær dætur og tveir synir. Yngri strákurinn er fjórtán ára og sá eldri sextán ára, og síðan eiga þau tvær uppkomnar dætur. Synirnir koma ekki strax vestur en gætu komið í sumar. „Að minnsta kosti klára þeir skólann hérna heima,“ segir Reynir Þór.

Í ljósi sífelldra húsnæðisvandræða á Reykhólum er Reynir Þór spurður hvar þau ætli að búa. Hann segir að þau séu búin að fá húsnæði á leigu að Hólatröð 1, eystra parhúsinu í eigu Reykhólahrepps við götuna nýju rétt neðan við Reykhólaskóla.

Og þá er að spyrja: Hvernig leggst þetta í ykkur?

„Þetta leggst vel í okkur, við erum mjög spennt og hlökkum til að takast á við þetta nýja verkefni. Við viljum endilega sjá og heyra hvað fólkið vill hafa í búðinni á Reykhólum og munum reyna að verða við því,“ segir Reynir Þór Róbertsson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024