Frá Keflavík til bandarísku borganna Philadelphia og Tampa
Á næsta ári hefur Icelandair flug til bandarísku borganna Philadelphia og Tampa. Báðar eru skammt frá öðrum áfangastöðum flugfélagsins. Túristi.is greinir frá þessu.
Í sumarbyrjun fer Icelandair jómfrúarferð sína til Philadelphia á austurströnd Bandaríkjanna og mun félagið fljúga þangað fram til 20. september. Þá verður nýhafið heilsársflug félagsins til Tampa í Flórída og þar með verða áfangastaðir félagsins í Norður-Ameríku orðnir átján talsins.
Athygli vekur að bæði Philadelphia og Tampa eru skammt frá öðrum flughöfnum sem Icelandair flýgur nú þegar til. Þannig þurfa íbúar fyrrnefndu borgarinnar aðeins að keyra í einn og hálfan tíma til að komast á Newark flugvöll þaðan sem þotur Icelandair taka á loft allt árið. Og þeir sem búa í Tampa geta komist um borð í Icelandair flugvél með því að keyra 150 kílómetra í austur í átt að flugvellinum í Orlando en þaðan flýgur Icleandair frá hausti og fram í sumarbyrjun hvert ár. Til Tampa verður hins vegar flogið tvisvar sinnum í viku allt árið um kring. Þéttleiki leiðarkerfis Icelandair er þó ekki mestur þarna því milli flugvallanna í Manchester og Birmingham í Englandi eru aðeins 142 kílómetrar en íslenska flugfélagið flýgur til beggja þessara borga allt árið um kring.
Ekki til fjölmennustu ríkjanna
Með þessum flugi til Philadelphia og Tampa má segja að Icelandair sé að styrkja sig á núverandi mörkuðum vestanhafs. Í stað þess að fara út í óvissuna í Kaliforníu og Texas, tveimur fjölmennustu fylkjum Bandaríkjanna, eða koma sér fyrir á þeim 1500 kílómetra kafla sem skilur að syðsta (Orlando) og næstsyðsta (Washington-borg) áfangastað félagsins á austurströnd Bandaríkjanna.
Á árunum í kringum hrun bauð Icelandair reyndar upp á flug til San Francisco en hefur ekki tekið upp þráðinn þar að nýju þó nú hafi félagið á ný yfir að ráða langdrægari flugvélum. WOW air hóf hins vegar í sumar flug til bæði Los Angeles og San Francisco og það gæti hafi fælt Icelandair frá þessum hluta Bandaríkjanna.
Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2017 verður um 13 prósent umfangsmeiri en á þessu ári og áætlað er að farþegar verði um 4,2 milljónir á árinu 2017. Það er fjölgun um 450 þúsund.