Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Flytja matvælaframleiðsluna til Reykjanesbæjar
Siggi skáti við pönnuna. Hann var í viðtali í Suðurnesjamagasíni fyrir tveimur árum síðan. Þá var nóg að gera.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 8. mars 2024 kl. 13:08

Flytja matvælaframleiðsluna til Reykjanesbæjar

Víking sjávarfang þurfti að henda mikið af matvælum eftir rafmagnsleysi

„Við höfum þurft að henda miklu magni af matvælum, það er alltaf leiðinlegt,“ segir Sigurður Garðar Steinþórsson eða Siggi skáti eins og hann er betur þekktur í Grindavík. Hann á og rekur fyrirtækið Víking sjávarfang ásamt fjölskyldu sinni en fyrirtækið framleiðir tilbúna fisk- og grænmetisrétti. Vinnsluhúsnæðið skemmdist lítillega í hamförunum 10. nóvember en skemmdirnar urðu fleiri og alvarlegri og á endanum var húsnæðið dæmt ónýtt og ekkert annað að gera hjá Sigga og fjölskyldu en að flytja sig og starfsemina. Þau stefna á að hefja rekstur í Reykjanesbæ í mars.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það hefur gengið illa að halda starfseminni gangandi síðan hamfarirnar áttu sér stað 10. nóvember en þann dag kom Siggi til landsins frá Spáni, þar sem hann á annað heimili. „Ég lenti um fimmleytið 10. nóvember og var sóttur upp á flugvöll af konu sem vinnur hjá mér. Hún býr á Ásbrú og var flúin heiman frá sér, eitthvað hefur því gengið á í Grindavík! Við fórum þangað og ég fór strax í vinnuna, var að fara undirbúa framleiðslu daginn eftir en svo hringdi Anna konan mín í mig og sagði mér að drífa mig í burtu eins og allir voru að gera. Ég tók lítilræði með mér og ætlaði að snúa til baka daginn eftir en ég fékk ekki að snúa til baka fyrr en þremur vikum seinna. Ég var ósáttur við að enginn skyldi geta farið inn í fyrirtækið og slegið inn rafmagninu, ég sá að það var orðið rafmagnslaust. Það skemmdist því mikið af vörum þá en ég bind ennþá vonir við að fá það bætt að einhverju leyti. Aðilar frá Náttúruhamfaratryggingum komu eftir þrjár vikur og skoðuðu húsnæðið sem hafði lítillega skemmst. Ég fékk að laga það sjálfur svo ég gæti hafið vinnslu aftur. Við vorum komin af stað í byrjun desember, gátum framleitt í tæpar tvær vikur en svo fórum við aftur til Spánar 16. desember, frí sem var löngu ákveðið.“

Á þessum myndum má sjá hluta þeirra matvæla sem eyðilögðust og þurfti að henda.

Leik lokið í Grindavík - í bili

Húsnæði Viking sjávarfangs er í sigdalnum austan megin í Grindavík og þótt Sigurður hafi náð að laga þær skemmdir sem urðu 10. nóvember, ágerðust þær jafnt og þétt og fyrir áramót var húsnæðið dæmt ónýtt af Náttúruhamfaratryggingum Íslands. Sigurður ætlaði sér samt að halda vinnslu áfram á meðan það var í boði en við eldgosið 14. janúar og meiri aflögun varð í Grindavík, er ljóst að ekki verða fleiri fiski- eða grænmetisbollur steiktar í húsakynnum fyrirtækisins í Grindavík.

„Ég kom frá Spáni 9. janúar og við hófum framleiðslu daginn eftir, gátum framleitt í þrjá daga en sáum þá að skólpið var ekki að virka og þá komu í ljós frekari skemmdir og eftir það höfum við ekkert getað unnið. Við geymdum vörurnar í frystinum en svo byrjaði að gjósa 15. janúar og við fengum ekki að fara inn til að sækja þær. Því erum við að henda miklu magni af matvælum og það er alltaf leiðinlegt. Það er ljóst að við munum ekki vinna meira í Grindavík í bili en ég er kominn með augastað á húsnæði í Reykjanesbæ og vonast til að geta hafið framleiðslu aftur í mars. Við höfum verið að framleiða um 30 tonn af grænmetis- og fiskréttum á ári, mest fyrir Danól og eins fer mikið frá okkur til Skólamatar. Reyndar töluðu þau hjá Skólamat um að kaupa meira af okkur en það hefur ekki gengið eftir en ég vona þau taki við sér og kaupi meira af okkur. Ég vil meina að við séum að framleiða hollan og góðan mat, við setjum engar mjólkurvörur, egg, hveiti eða rotvarnarnefni í matarskammtana okkar. Þetta er búið að vera barningur að undanförnu en það er gott að fá skýrar línur í þetta, nú er bara að finna húsnæði, koma tækjum og tólum fyrir og hefja framleiðslu á fullu,“ sagði Siggi að lokum.