Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Landsbankinn undirrita samning um aukna fjármálaþjónustu í Flugstöðinni
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og Landsbanki Íslands hf. hafa undirritað samning um leyfi til reksturs fjármálaþjónustu í Flugstöðinni til næstu 7 ára. Landsbankinn mun reka gjaldeyrisþjónustu fyrir ferðamenn sem leið eiga um Flugstöðina og alhliða fjármálaþjónustu fyrir starfsmenn og fyrirtæki á flugstöðvarsvæðinu.
Landsbankinn hefur um áratugaskeið verið leiðandi á sviði sérhæfðrar gjaldeyrisþjónustu við ferðamenn hér á landi og starfrækt gjaldeyrisafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli allt frá árinu 1973.
Nýi samningurinn tekur til reksturs banka- og gjaldeyrisþjónustu í komusal á 1. hæð Flugstöðvarinnar og sérstakrar gjaldeyrisafgreiðslu á frísvæðinu á 2. hæð. Gert er ráð fyrir að bankinn muni efla verulega fjármálaþjónustu við flugfarþega og aðra viðskiptavini á flugvallarsvæðinu. Þannig verður gjaldeyrishraðbönkum fjölgað um tvo, en þeir bjóða bæði upp á erlendan gjaldeyri og íslenskar krónur. Þá mun Landsbankinn auka þjónustu vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa ferðamanna á vörum og þjónustu á Íslandi við brottför þeirra frá landinu.
Viðskiptavinir Landsbankans munu einnig eiga þess kost að panta gjaldeyri fyrirfram hjá þjónustuveri bankans sem afhentur er í Leifsstöð við brottför. Megináhersla bankans verður að veita hraða og örugga fjármálaþjónustu sem sérsniðin er fyrir flugfarþega.
FLE hf. efndi til forvals um aðgang og afnot af verslunar- og þjónusturýmum í Flugstöðinni fyrir tæpum tveimur árum. Umsóknir um rekstur fjármálaþjónustu bárust frá fjórum fyrirtækum, sem öll uppfylltu þau ströngu skilyrði sem sett eru fyrirtækjum í banka- og fjármálaþjónustu. Eftir vandlegt mat á umsóknum var Landsbankanum boðið til samstarfs um rekstur fjármálaþjónustu í Flugstöðinni enda féllu hugmyndir bankans vel að markmiðum forvalsins um aukna þjónustu við farþega og markmiðum sem lúta að bættum árangri í þessari starfsemi í Flugstöðinni.
Myndin: Skrifað undir samninginn í Flugstöð Leifs Eríkssonar í dag. F.v.: Halldór J. Kristjánsson bankastjóri, Sigurjón Árnason bankastjóri, Gísli Guðmundsson stjórnarformaður FLE hf, Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri FLE hf. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.