Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 20. september 2001 kl. 09:40

Flughótelið breytir um svip

Nýir rekstraraðilar tóku við rekstri Flughótel 1. mars sl. og af því tilefni var búið að skreyta hótelið hátt og lágt og vinum og viðskiptaaðilum boðið til veislu fyrir skömmu. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á hótelinu sem eiga eftir að koma viðskiptavinum til góða.
Kaupfélag Árnesinga á Selfossi rekur Flughótel en kaupfélagið rekur einnig Hótel Flúðir og Hótel Kirkjubæjarklaustur undir Icelandair merkinu samkvæmt sérleyfissamningi. K.Á. var áður með Hótel Selfoss, Gesthús á Selfossi og Hótel Vík.
Listakokkurinn Sverrir Þór Halldórsson rekur nú veitingadeildina á Flughóteli, en hann tók við rekstri hennar 15. júní sl. Þá var opnaður veitingasalur á annarri hæð, og Kaffi Flug opnaði þann 10. ágúst. „Við erum með morgunmat í veitingasalnum frá kl. 5-10 á morgnana en þá tekur Kaffi Flug við. Í hádeginu er boðið upp á súpu, brauð, salatbar og heitan rétt til kl. 13:30. Þá byrjum við með heitar vöfflur, tertur, samlokur og ýmsa smárétti. Veitingasalurinn opnar aftur kl. 18 og þá er boðið upp á a la cart matseðil. Salurinn er opinn til kl. 22 og barinn til kl. 23:30“, segir Sverrir Þór veitingastjóri og bætir við að með þessum breytingum er ætlunin að þjóna hótel- og fundagestum enn betur.
Að sögn Bergþóru Sigurjónsdóttir, hótelstjóra á Flughóteli, hefur nýting á herbergjum verið góð í sumar og mikil aukning frá fyrra ári. „Ferðaiðnaðurinn hefur breyst mikið til batnaðar hér á Suðurnesjum. Sérstaklega hvað varðar afþreyingu, t.d. með tilkomu go-kart brautar og fleiri hvalaskoðunarskipum. Bláa lónið heillar einnig marga útlendinga sem og Íslendinga. Ég hef séð ferðaiðnaðinn vaxa hratt hér á Suðurnesjum á síðustu árum og ferðamenn gera nú meiri kröfur en áður. Til gamans má benda á að það eru ótrúlega margir Íslendingar sem búa úti á landi og vita lítið um Suðurnesin. Það þarf í raun að fara mjög stutt til að sjá hreinar náttúruperlur eins og Reykjanesskagann. Nú vantar okkur tilfinnanlega upplýsingamiðstöð hér í Reykjanesbæ þar sem ferðamenn geta leitað upplýsinga um alla þjónustu og afþreyingu á svæðinu“, segir Bergþóra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024