Flug: Icelandair íhugar hækkun en Iceland Express hækkar ekki
Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að öll flugfélög verði að bregðast við hækkandi eldsneytisverði með einhverjum hætti. Iceland Express ætlar ekki að hækka verð á fargjöldum. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að eldsneytisverð til flugfélaga hafi hækkað um 30-40% frá áramótum og á einu ári um 70%.
Ólafur Hauksson, talsmaður Iceland Express, segir að þrátt fyrir hækkandi eldsneytisverð verði verð á flugfargjöldum í millilandaflugi ekki hækkað. Til þess að mæta hækkandi eldsneytisverði sé beitt stöðugu aðhaldi í rekstrinum og öllum kostnaði sé haldið í lágmarki. Fyrirtækið hafi meðal annars náð að lækka kostnað við nokkra rekstrarliði og það komi á móti hækkandi eldsneytisverði. Ólafur segir að með því að halda áfram lágu verði á fargjöldum, fjölgi farþegum og það skapi tekjur fyrir félagið.
Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.