Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

FLE: Tæplega 320 milljóna króna hagnaður
Fimmtudagur 1. september 2005 kl. 15:42

FLE: Tæplega 320 milljóna króna hagnaður

Hagnaður Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. eftir skatta var 318 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2005 samanborið við 176 milljónir árið á undan.  Hagnaðurinn er að megin hluta tilkominn vegna aukinna tekna af verslunarrekstri dótturfélaga og vegna hagstæðs gengis.

Heildartekjur félagsins fyrstu sex mánuði ársins 2005 námu um 2.729 milljónum króna og jukust um 15% milli ára.  Vegur fjölgun farþega sem fara um flugstöðina þyngst í aukningu tekna, en þeim hefur fjölgað um rúm 10% fyrstu sex mánuði ársins miðað við árið 2004.  Einnig er rekstur Íslensks markaðar að öllu leyti inni í rekstrartölum þessa árs sem hann var ekki árið 2004.  

Rekstrargjöld eru um 18% hærri en á sama tíma árið 2004 sem kemur aðallega til vegna kostnaðarverðs seldra vara og að rekstrargjöld Íslensks markaðar ehf. eru inni í árshlutareikningi 2005 en voru það ekki fyrir árið 2004. Hlutfall hagnaðar fyrir afskriftir af  rekstrartekjum er nú 31%. 

Rekstur félagsins hefur verið í samræmi við áætlanir það sem af er þessu ári og allt útlit fyrir að áætlanir ársins í heild munu ganga eftir. Félagið er fjárhaglega sterkt og hefur náð að uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar voru við stofnun þess.

Eignir félagsins námu í lok júni tæpum 14 milljörðum króna og höfðu aukist um 1,8% frá áramótum, helstu breytingar á eignum aukning á fastafjármunum vegna framkvæmda við flugstöðina. Eigið fé nam 5,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 38,3%. Arðsemi eigin fjár var á tímabilinu 12,3% en á sama tímabili árið áður var arðsemi eigin fjár 7,6%.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024