FLE: Milljarður í rekstrarhagnað
Starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) skilaði eins milljarðs króna rekstrarhagnaði í fyrra sem er rúmlega hundrað milljóna króna meiri hagnaður en 2004. Þetta kom fram á aðalfundi FLE sem haldinn var í gærdag.
Rekstrartekjur samstæðunnar, FLE og dótturfélaganna Fríhafnarinnar og Íslensks markaðar, námu ríflega 6,2 milljörðum króna og jukust um 6,3 % frá fyrra ári. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu tæplega 4,2 milljörðum króna og jukust um 4,7 % frá fyrra ári. Heildartekjur jukust um nær hálfan milljarð króna sem er talsvert umfram áætlun.
FLE greiðir eigendum sínum, íslenska ríkinu, 250 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2005. Félagið hefur þar með greitt alls 1250 milljónir króna í arð í ríkissjóð frá upphafi sem jafngildir helmingi hlutfjársins sem ríkið lagði félaginu til við stofnun þess árið 2000.
Gert er ráð fyrir að um tvær milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár en til samanburðar voru það 1,2 milljónir árið 2002. Ör farþegafjölgun kallaði því á flýtingu framkvæmda við stækkun flugstöðvarinnar og því ákvað stjórn FLE að stækka norðurbygginguna um 14.000 fermetra. Þegar yfirstandandi framkvæmdum lýkur snemmsumars 2007 verður brottfararsvæðið í flugstöðinni meira en tvöfalt stærra en nú og rekstur verslunar, þjónustu og afþreyingar af ýmsu tagi verður umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr.
VF-myndir/ JBÓ
[email protected]