Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fjórðungs söluaukning á síðasta ári
Sölumennirnir Svavar Grétarson og Mikael Þór Halldórsson við Chevrolet Volt rafmagnsbílinn.
Sunnudagur 27. janúar 2013 kl. 08:00

Fjórðungs söluaukning á síðasta ári

Síðasta ár var gott hjá Bílabúð Benna í Reykjanesbæ en fjórðungs söluaukning varð í bílasölu hjá fyrirtækinu. Nýlega kom á markað Volt, glæslegur rafmagnsbíll frá Chevrolet og ríkir mikil spenna fyrir bílnum sem er byltingarkenndur.

Volt býður uppá kærkomna möguleika og er fagnaðarefni fyrir alla sem láta sig varða verndun náttúrunnar, vilja draga úr notkun á bensíni og gefa ódýru heimilisrafmagni nýtt hlutverk. Volt kemst yfir 60 km á einni hleðslu og bensínknúinn rafall eykur ökudrægið yfir 500 km. Volt hefur verið á markaðnum í Bandaríkjunum í tvö ár og viðamikil þarlend könnun sýnir að hjá flestum Volteigendum sem hlaða bílana reglulega, geta liðið allt að sex mánuðir á milli heimsókna á bensínstöðvar. Fólk hleður Volt á nóttunni og ekur á daginn. Einfaldara getur það ekki verið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir Svavar Grétarson og Mikael Þór Halldórsson sem starfa sem sölufulltrúar hjá Bílabúð Benna eru bjartsýnir á að bílinn sé það sem koma skal í framtíðinni. Bílinn er nokkuð kraftmikill eða 150 hestöfl og er rétt rúmar 9 sekúndur í hundraðið. „Þessi græja er algjör snilld,“ segir Svavar. „Bílinn hefur verið að fá gríðarleg viðbrögð enda byltingarkenndur bíll. Hann er orðinn mjög stór í Bandaríkjunum og enn í miklum vexti.“ Reiknað hefur verið út að það kosti 16,9 kílóvattstundir að hlaða bílinn til þess að keyra 100 kílómetra. Það gerir rétt um 200 krónur miðað við rafmagnsverð á Suðurnesjum. Hægt er að hlaða bílinn nánast hvar sem er en notast er við venjulegt heimilisrafmagn. Að þeirra sögn er þetta fyrsti alvöru raunhæfi rafmagnsbílinn á markaði á Íslandi. „Þetta er þessi raunverulegi græni kostur sem verður ráðandi í framtíðinni,“ segir Svavar en þróunin stefnir þangað að þeirra mati.

Hjá fyrirtækinu er einnig dekkjaverkstæði, þjónustustöð, smurstöð og bónstöð. Starfsmenn hjá fyrirtækinu eru sjö talsins og ekki laust fyrir að fjölgað verði þegar líða tekur á árið.

Þeir Svavar og Mikael eru sáttir við sölu síðasta árs en þá var 25% söluaukning. Miklar breytingar voru hjá fyrirtækinu á síðasta ári og m.a. var malbikað bílaplanið sem þeir félagar segja kærkomið. „Það var gjörbylting frá gamla malarplaninu og mjög jákvætt,“ segja þeir félagar. Fyrirtækið er staðsett í fremur auðþekkjanlegu húsi, hinu svokallaða glerhúsi á Fitjum. Þar segjast þeir kunna vel við sig en þeir hafa verið þarna til húsa síðan 2009.

Nú er komið upp fullkomið þjónustuverkstæði og bifvélavirki hefur verið ráðinn til starfa. Það mætti því segja að allt sé til staðar á einum stað sem þarf fyrir bílinn. Þarna er allt til staðar sem þarf að nálgast og óþarfi að fara til Reykjavíkur. Dekkjaverkstæðið er í miklum vexti og fólk nýtir sér í miklu magni dekkjageymslu þar sem dekkjaumgangurinn er geymdur og því þarf fólk bara að mæta á staðinn til að skipta um.