Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fjölþjóðlegt fjölskyldulíf
Ingigerður Sæmundsdóttir ásamt syni sínum, Sigurbergi Bjarnasyni. VF-mynd/hilmarbragi
Sunnudagur 28. febrúar 2016 kl. 06:00

Fjölþjóðlegt fjölskyldulíf

- Fjölskyldan deilir húsi með ferðamönnum

„Þetta er nú ekki dæmigert íslenskt heimili hjá okkur,“ segir Ingigerður Sæmundsdóttir sem býr í rúmgóðu húsi í Njarðvík og rekur þar gistiheimilið Blue View Bed and Breakfast. Ingigerður festi kaup á húsinu á síðasta ári með það fyrir augum að reka þar gistiheimili. Þar býr hún með 17 ára gömlum syni sínum og önnur eldri dóttir hennar býr nú hjá þeim tímabundið. Fjölskyldan er með sín herbergi á efri hæðinni en herbergi gistiheimilisins er á þeirri neðri. Þau deila svo öll eldhúsi, stofu og baðherbergjum. „Sumir spyrja mig hvernig ég tími að fórna einkalífinu en ég lít ekki á þetta þannig því ég get haft gistiheimilið lokað þá daga sem mér hentar. Til dæmis höfum við alltaf lokað þegar við eigum afmæli og yfir jólin.“ Ingigerður segir ávinninginn af því að búa á gistiheimili margvíslegan. Hún sé orðin víðsýnni og eigi heimboð um allan heim.
 
Fékk strax góðar viðtökur
Gistiheimili Ingigerðar fékk strax góðar viðtökur hjá ferðamönnum og hefur verið góð nýting á herbergjum. „Enn sem komið er hef ég ekki eytt neinu í auglýsingar eða markaðssetningu en er að vinna að því að gera vefsíðu.“ Ýmis skilyrði þarf að uppfylla til að fá leyfi til að opna gistiheimili og segist Ingigerður hafa komst að því að það sé aldeilis ekki nóg að kaupa rúm og byrja svo að hýsa ferðamenn. Húsnæði þurfi að vera í topp standi og það ferli að fá leyfi tók um tvo mánuði.
 
Ferðamenn panta gistingu hjá Ingigerði í gegnum vefsíðurnar Airbnb og á Booking.com. Þar er hægt að setja inn umsagnir eftir dvölina og lýsa upplifun sinni. Ingigerður viðurkennir að hafa verið svolítið stressuð yfir umsögnunum til að byrja með en það reyndist óþarfi því að á heildina litið hafa þær verið góðar. Vefurinn Booking.com gefur gististöðum einkunn eftir umsögnum og er Blue View með 9.4 í einkunn af 10 mögulegum. „Það er rosalega gott að fólk finni að það sé velkomið og líði vel hér.“ Umsagnirnar skipta miklu máli fyrir viðskiptin og segir Ingigerður marga gesti hafa haft á orði að þeir hafi valið gistihúsið eftir að hafa lesið umsagnir annarra.
 
 
 
Norðurljósin með í liði
Flestir gestirnir eru frá löndum Evrópu eða Kanada. Þeir dvelja ýmist í nokkra daga eða fyrstu og síðustu nóttina á Íslandi. Ingigerður segir staðsetningu gistiheimilisins góða enda stutt í alþjóðaflugvöllinn. Þá sé einnig ótal margt í boði fyrir ferðamenn á svæðinu og hvetur hún ferðamenn til að skoða Reykjanesið. „Stundum kemur fólk hingað síðustu nóttina sína og er þá búið að þvælast um allt land. Það er oft ekki fyrr en þá að fólk gerir sér grein fyrir því hversu fallegt er hérna og margt að gera. Þá verður fólk oft svekkt en ég segi þeim bara að koma aftur og skoða Reykjanesið vel. Svo eru aðrir sem dvelja hérna í nokkra daga og fara í dagsferðir héðan. Það fólk er með sveigjanlegri dagskrá og skoðar þá Reykjanesið líka. Svo er Bláa lónið alltaf vinsælt, Víkingaheimar, Duus-hús og allir litlu veitingastaðirnir á Suðurnesjum. Svo má ekki gleyma því að norðurljósin hafa heldur betur verið með okkur í liði í vetur og fólki finnst alveg frábært að liggja í heita pottinum og njóta þeirra.“
 
Stundum koma ferðamenn til Ingigerðar sem tala ekki ensku, flestir þeirra frá Frakklandi eða Kína. Þá nýta þau sér app sem þýðir jafnóðum. Þá tala ferðamennirnir í símann sinn og appið þýðir strax yfir á ensku. Ingigerður svarar fyrirspurninni svo á ensku í símann og appið þýðir á móðurmál ferðamannsins. Hún segir þetta fyrirkomulag ganga vel til að leysa einföld mál.
 
Ferðamenn vilja hitta Íslendinga
Ingigerður er kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja svo það er í mörg horn að líta hjá henni yfir vetrartímann. Hún kveðst því hlakka til sumarsins og að geta einbeitt sér að því að taka á móti gestunum. Oft er það þannig þegar fólk finnur sér gistingu á vefnum Airbnb að því er bara réttur lykill að íbúð en á ekki í neinum samskiptum við þá Íslendinga sem eiga húsnæðið. „Stundum koma hingað ferðamenn sem eru búnir að ferðast um Ísland í tíu daga en hafa ekki lent á spjalli við neinn Íslending. Þá er fólk oft búið að drekka marga lítra af pilsner sem það heldur að sé bjór og kaupa tugi lítra af vatni. Ég finn það vel að fólk kann vel við að geta spjallað við einhvern enda er það með ótal margar spurningar, til dæmis um menningu, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, lífsstíl og kindurnar. Fólk er búið að sjá kindur út um allt og veit sáralítið um þær. Spurningar eins og hver eigi kindurnar og hvernig þeim er smalað saman eru mjög algengar. Ferðamennirnir vilja hitta okkur Íslendinga og spjalla svo við þurfum að veita þeim meiri athygli.“
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024