Fjölsmiðjan innréttir gömlu Húsasmiðjuna
Nýtt vinnusetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára er að rísa á Iðavöllum í gamla Húsasmiðjuhúsinu. „Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir fólk sem er hvorki í skóla né vinnu,“ sagði Ólafur Þór Ólafsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum. „Í stuttu máli gengur starfsemin út á það að bjóða krökkum í þessum hópi verkefni til að hjálpa þeim í að byggja sig upp en vonandi skilar þetta þeim á vinnumarkaðinn eða í nám seinna meir.“
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum á sér fyrirmyndir í Kópavogi og eins á Akureyri sem er líkari að stærð. „Við verðum með 20 til 25 þátttakendur og svo þrjá starfsmenn en það er svipað og er á Akureyri. Þetta er rekið eins og hver annar vinnustaður og fá krakkarnir greitt fyrir vinnuna en ef einhver mætir ekki, þá fær hann ekkert laun fyrir þann dag.“
Stefnt er á að í vor verði húsnæðið tilbúið til notkunar og mun mikil starfssemi fara þar fram. „Hingað færist kompan sem Rauðikross Íslands er með og munum við halda henni meira opinni og gera þetta að flottari verslun. Einnig verðum við með viðgerðarþjónustu, bón og þrif á bílum, pökkunar- og niðurrifsþjónustu og svo mötuneyti fyrir þá sem hér starfa.“
Nánar síðar.