Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fjölskyldufyrirtæki í stöðugum vexti
Laugardagur 1. september 2012 kl. 18:12

Fjölskyldufyrirtæki í stöðugum vexti

Hópferðir Sævars og Ferðaþjónusta Reykjaness eru fjölskyldufyrirtæki í Reykjanesbæ í eigu hjónanna Sævars Baldurssonar og Margrétar Örnu Eggertsdóttur. Sævar stofnaði Hópferðir árið 2005 en þá hafði hann verið í rekstri hópferðabifreiða frá árinu 2000. Frá stofnun fyrirtækisins hefur þróun á starfsumfangi þess verið hröð og spennandi. Mikill meirihluti af verkefnum Hópferða var upphaflega í tengslum við Flugvöllinn og flugstöðina. Árið 2002 fór Sævar að keyra börn með sérþarfir á vegum Sandgerðisbæjar og í kringum 2005-2006 bættust Reykjanesbær og Garður í þann hóp. Í kjölfar þess var Ferðaþjónusta Reykjaness stofnuð til að annast þann akstur. „Við sáum þörf fyrir faglega þjónustu við einstaklinga með fötlun og helltum okkur á fullu út í þann rekstur“ segir Sævar.

Þegar Ferðaþjónusta Reykjaness var stofnuð starfaði Margrét ein í 100% starfi en fékk aðstoð part úr degi við aksturinn frá leigubílum. Í dag starfa þrír starfsmenn í 100% starfi hjá Ferðaþjónustu Reykjaness.

Allt að 11 starfsmenn eru á launaskrá hjá Hópferðum Sævars og Ferðaþjónustu Reykjaness til samans yfir háannatíma. Í dag ekur Ferðaþjónusta Reykjaness 60-70 börnum og fullorðnum með sérþarfir en sú þjónusta hefur  verið í örum vexti sl. ár. Sem dæmi um hve miklar vegalengdir eru í akstri Ferðaþjónustu Reykjaness þá aka tveir bílar samtals um 550 km á dag um Suðurnesin. Með það í huga ákváðu Sævar og Margrét Arna að vinna í umhverfismálum fyrirtækisins með því að leita leiða til að gera aksturinn umhverfisvænni og núna er Ferðaþjónusta Reykjaness með tvo vistvæna bíla í flota sínum þ.e. bíla sem eru knúnir metan sem orkugjafa.

Sævar hóf að keyra starfsmenn fyrir Icelandair strax í upphafi og fjárfesti í einni bifreið. Í dag reka fyrirtækin saman tólf bifreiðar.

„Ég fór út í þennan rekstur á sínum tíma vegna áhrifa frá pabba. En hann er búinn að vera leigubílstjóri í yfir 20 ár og hafði einnig fengist við að keyra áhafnir fyrir Air Atlanta. Það var upphafið að rútudellunni hjá mér og þegar hann var hluthafi í fyrirtæki í hvalaskoðun fór ég að keyra hópferðabíla fyrir hann,“ segir Sævar en hann ekur einnig sjálfur leigubíl á A-stöðinni í Reykjanesbæ.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margrét Arna Eggertsdóttir, eiginkona Sævars, hefur komið að rekstrinum með honum eftir að þau kynntust árið 2005 og segir Sævar að hún hafi hvatt hann til dáða og fyrirtækið hafi smátt og smátt farið að auka við sig en Margrét Arna er sjúkraliði og þroskaþjálfi að mennt og bætti við sig hópferða- og leigubifreiðaprófinu fljótlega eftir að þau kynntust.

Í dag eiga þau og reka fyrirtækin saman. „Hún ýtti mér af stað, þessi orkumikla manneskja og þrátt fyrir að ég hafi verið byrjaður þá hefur hún ávallt tekið með mér næstu skref og stutt mig í ákvarðanatökum“. Fyrirtækin  hafa  stækkað við sig um húsnæði úr 90 fermetrum í 450 fermetra en nýlega fluttist starfsemin að Vesturbraut 12 í Reykjanesbæ. Þar hafa miklar endurbætur átt sér stað og húsnæðið tekið miklum breytingum. Þar er öll aðstaða fyrir hendi fyrir akstursþjónustufyrirtæki, en það var upphaflega byggt og hannað fyrir SBK og oft í dag kallað gamla rútustöðin en í gríni segir Sævar að nú sé þetta nýja rútustöðin.

Markmið fjárfestingarinnar var að skapa sem bestar aðstæður til reksturs og viðhalds bifreiða í húsnæði þar sem flest allt sem að því snýr rúmast undir sama þaki.  Þ.e.a.s. verkstæði, þrifaðstaða, skrifstofur, móttaka fyrir pantanir og fundaraðstaða með samstarfsaðilum.

Viljum geta boðið  ferðamönnum upp á ferðir um Reykjanesið

Þetta litla fjölskyldufyrirtæki er í miklum blóma og mikið að gera yfir sumartímann  eins og gefur að skilja. „Það má segja að það sé mikið álag, sérstaklega yfir sumarmánuðina,“ segir Sævar en þau hjónin sjá um allt mögulegt sem viðkemur rekstrinum og keyra m.a. bæði.

Það er háannatími á sumrin hjá  Hópferðum en á veturna hjá Ferðaþjónustu fatlaðra eins og áður segir. „Því mætti segja að jafnvægið sé gott á ársgrundvelli hvað varðar verkefnastöðu,“ segir Sævar.

Hjónin hafa hug á því að komast betur inn á markaðinn í akstri á Suðurnesjum en til stendur að bjóða út einhverjar akstursleiðir innan skamms og þar sjá þau möguleika til að auka starfsemi sína enn frekar. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við SBK með akstur Strætó milli Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Sv, Garðs, Leið 4.  „Þar hefur farþegum fjölgað töluvert en á síðasta ári fluttu SBK og Hópferðir Sævars 28.000 farþega á þessari leið. Markaðurinn er alltaf að opnast meira og meira,“ að sögn Margrétar Örnu og samkeppnin um leið að aukast. „Það er hægt að vera í samkeppni og um leið í góðu samstarfi, það er hægt að vinna að sömu markmiðum þó samkeppni sé fyrir hendi,“ bætir Sævar við.

Ætla að setja upp ferðaskrifstofu

Með áætlunum um að opna ferðaskrifstofu í húsnæði þeirra við Vesturgötu hyggjast þau Sævar og Margrét Arna bjóða upp á dagsferðir fyrir einstaklinga sem sækja Reykjanesið heim. Bæði er þá um að ræða ferðir á vinsæla staði eins og t.d. Gullna hringinn svokallaða. Þessar dagsferðir eru fyrirferðamestar á markaðinum í dag að þeirra mati. En þau langar einnig  til að bjóða upp á ferðir um Suðurnesin sjálf. „Flestir sem búa hérna á Reykjanesinu hafa  auðvitað áhuga á þessu svæði. Við þekkjum kosti þess, fjölbreytileika og sögu. Það er bara spurning um hvernig ákjósanlegast er að  markaðssetja svæðið,“ segir Margrét Arna. Sævar segir að þrátt fyrir að ferðamönnum fjölgi stöðugt þá séu ferðamenn mikið að ferðast á eigin vegum og þ.a.l. hafi ekki verið mikil aukning á hópferðum sem slíkum.

Hópferðir Sævars hafa í nógu að snúast í kringum starfsmenn og farþega Keflavíkurflugvallar og enn eru miklir vaxtarmöguleikar varðandi alla þá starfsemi sem þrífst á flugvellinum og mætti segja að sú þjónusta sé einn af hornsteinum fyrirtækisins. Hópferðir Sævars bjóða upp á ferðir fyrir alla mögulega viðburði sem hugsast getur.

Framtíðin virðist  björt hjá þessum fyrirtækjum líkt og hjá öðrum sem tengjast ferðamennsku með einum eða öðrum hætti.