Fjölgun gistinátta 175% á Suðurnesjum
Mikil fjölgun ferðamanna frá Kanada.
Fimm stjarna hótel að opna í Reykjanesbæ
Suðurnesin hafa ekki farið varhluta af þeim fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim allt árið um kring. Gistiheimilum hefur fjölgað þó nokkuð á svæðinu undanfarin ár og eru nú 66 gististaðir skráðir með leyfi hjá Sýslumanni. Mest var fjölgunin á síðasta ári.
Nýting herbergja á hótelum og gistiheimilum á Suðurnesjum hefur einnig aukist mikið á undanförnum árum. Árið 2010 var nýtingin 40,3 prósent en var á síðasta ári 64,5 prósent.
Í skýrslu Nordregio, Landfræðistofnunar Norðurlanda, sem kom út á dögunum kemur fram að fjölgun gistinátta á Suðurnesjum frá árinu 2008 til ársins 2014 hafi verið 175 prósent. Í skýrslunni er samkeppnishæfni 74 sveitarfélaga og stjórnsýslusvæða á Norðurlöndum metin og möguleikar þeirra til að laða að sér fjármagn, störf og mannauð. Í skýrslunni segir að það sé mikill styrkur fyrir Suðurnesin að hafa alþjóðaflugvöllinn og Bláa lónið á svæðinu.
Margir dagar næsta sumar uppbókaðir
Hótelrekendur á Suðurnesjum þekkja tímana tvenna og þeir sem blaðamaður Víkurfrétta ræddi við voru sammála um að mikill munur væri á fjölda gesta yfir vetrartímann. Að sögn Friðriks Einarssonar, hjá Northern Light Inn í Grindavík, finna þau vel fyrir fjölgun ferðamanna. Nú þegar eru margir dagar næsta sumar uppbókaðir og bókanir fyrir árið 2017 eru farnar að berast. „Við höfum verið lánsöm að hafa verið með góða nýtingu undanfarin ár. Því þökkum við einna helst góðu starfsfólki okkar sem skilar sér í góðum umsögnum gesta okkar á síðum eins og TripAdvisor og á bókunarsíðum. Svo erum við nálægt Keflavíkurflugvelli sem er styrkur, sem og nálægð við Bláa lónið og okkar frábæra aðstaða til að njóta norðurljósanna. Allt þetta gerir það að verkum að við finnum vel fyrir fjölgun ferðamanna,“ segir hann. Á Northern Light Inn eru margir gestanna frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Japan og Mið-Evrópu. Þá koma nú fleiri ferðamenn frá Kanada eftir að Icelandair fjölgaði áfangastöðum þangað á síðasta ári. „Nú koma líka margir frá Ástralíu, Kína, Indlandi og fleiri löndum sem ekki hafa verið mikið áður.“
Friðrik segir gesti hótelsins dvelja lengur nú en áður. „Við sáum það sérstaklega í janúar þegar Bláa lónið lokaði. Þá fengum við fullt af nýjum viðskiptavinum sem dvöldu lengur hjá okkur og voru duglegir að fara í skoðunarferðir. Við erum mjög ánægð að sjá aukinn kraft í starfsemi sem snýr að afþreyingu. Hér á Reykjanesi er fjöldinn allur af skemmtilegum og fallegum stöðum að skoða. Það er gaman að sjá kraftinn í Markaðsstofu Reykjaness og ég hef trú á því að ef það góða starf heldur áfram þá muni erlendir ferðamenn dvelja lengur á Reykjanesinu en áður.“
Góð viðbrögð við 5 stjörnu hóteli
Hótel Keflavík fagnar 30 ára afmæli sínu í maí á þessu ári. Efstu hæð hótelsins hefur verið breytt í fimm stjarna hótel, Diamond Suite, sem verður formlega opnað á tímamótunum. Þrátt fyrir að formleg opnun hafi ekki farið fram eru gestir farnir að dvelja þar. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð og það er gaman að fyrsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi sé í Keflavík. Gestir Diamond Suite dvelja nær undantekningarlaust í þrjár nætur eða lengur og það kom mér skemmtilega á óvart,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri. Hann segir bókanir berast fyrr núna en á síðustu árum. Síðasta haust var byrjað að panta fyrir komandi sumar sem útlit er fyrir að verði annasamt á hótelinu.
Norðurljósin eru helsta aðdráttaraflið
Hótel Keilir var opnað fyrir tíu árum og segir Bryndís Þorsteinsdóttir þau hafa fundið fyrir mikilli aukningu ferðamanna síðustu tvö árin, sérstaklega yfir vetrartímann. Á hótelinu eru nú fleiri starfsmenn en áður til að anna auknu álagi. Margir gesta Keilis koma frá Bretlandseyjum og segir Bryndís sífellt fleiri koma þaðan í helgarferðir til Íslands. „Þeim ferðamönnum er alltaf að fjölga sem dvelja hjá okkur í þrjár nætur. Sumir panta með góðum fyrirvara en yngra fólk kemur oft til Íslands án þess að vera búið að panta hótel fyrirfram,“ segir hún.
Bryndís kveðst telja norðurljósin vera helsta aðdráttarafl ferðamanna. Sumir sækja í ys og þys höfuðborgarinnar en aðrir kunna vel að meta að dvelja í rólegheitum á Suðurnesjum. „Á Garðskagavita er góð aðstaða til að sjá norðurljósin og ekki er langt að fara og það bendum við gestum okkar á. Mörgum finnst heillandi að sjá lífið í hefðbundnum íslenskum bæjum. Fólk fer niður á höfn í Sandgerði og sér bátana koma inn.“
Nýting herbergja á gistiheimilum og hótelum á Suðurnesjum:
2010 40,3%
2011 46,3%
2012 47%
2013 54,9%
2014 55,8%
2015 64,5%