Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fjöldaframleiðsla hafin hjá HBT á Ásbrú
Fimmtudagur 14. maí 2009 kl. 09:59

Fjöldaframleiðsla hafin hjá HBT á Ásbrú


Fjöldaframleiðsla á rafbjögunarsíum hjá HBT hf. á Ásbrú er formlega hafin. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og rekstrarstjóri Frumkvöðlasetursins í Eldey klipptu á borða því til staðfestingar. HBT gerir ráð fyrir að setja saman 20-30 einingar á mánuði. HBT er svokallað sprotafyrirtæki og hefur aðsetur í Frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Í Víkurfréttum í síðustu viku kynntumst við starfsemi HBT en í forsvari fyrir fyrirtækið er Jóhann R. Benediktsson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum. Meðfylgjandi er umfjöllun Víkurfrétta frá því í síðustu viku.





Sprotafyrirtæki tekið að blómstra á Ásbrú

Jóhann R. Benediktsson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, var áberandi í umræðunni hér Suður með sjó á síðasta ári. Hann stóð í miklum átökum við þáverandi ráðamenn í dómsmálaráðuneytinu sem vildu gera miklar breytingar á embætti Jóhanns. Úr varð að Jóhann ákvað að segja starfi sínu lausu. Þrátt fyrir að vera búsettur í Garðabæ, eru Suðurnes ennþá starfsvettvangur Jóhanns, því fyrirtæki hans, HBT hf. hefur hreiðrað um sig á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Stofnað skömmu fyrir bankahrun

HBT var stofnað síðsumars í fyrra, skömmu fyrir bankahrunið. Það var bróðir Jóhanns, Kristjón Benediktsson, sem stofnaði fyrirtækið og þegar breytingar urðu á högum Jóhanns og hann hvarf úr starfi lögreglustjóra hvatti bróðir hans til þess að hann myndi snúa sér að einhverju jákvæðu og uppbyggilegu í stað þeirrar togstreitu sem hann hafði verið í áður. Það varð úr að Jóhann gekk til liðs við HBT. Á þessum tíma var komið vilyrði fyrir fjármögnun á fyrirtækinu en HBT hafði varla komið sér fyrir í frumkvöðlasetrinu í Eldey á Ásbrú og ráðið tíu manns í vinnu þegar bankarnir hrundu og ekkert fjármagn fékkst í reksturinn.

„Það var merkileg lífsreynsla að fara í gegnum veturinn með nýstofnað fyrirtæki með veikan grunn til að byggja á. Það sem meira er, er að við erum að vinna með orkusparandi lausnir fyrir stórnotendur og sú lausn sem fyrirtækið var í upphafi stofnuð um þurfti ákveðið fjármagn í einhvern tíma til að þróa þá lausn áfram og koma henni á markað. Það var hins vegar sýnt að við myndum ekki ná landi með fyrirtækið eins og það var fjármagnað ef við ætluðum að vinna í þeirri lausn eingöngu. Það var því úr að við gerðum samstarfssamning við uppfinningamann frá Akureyri í nóvember um aðra orkusparandi lausn og við ákváðum að einbeita okkur að henni, þar sem sú lausn myndi fyrr gefa okkur tekjur,“ segir Jóhann í samtali við Víkurfréttir.

Rafbjögunarsían í fjöldaframleiðslu

„Í dag er útlitið vægast sagt bjart. Við byrjuðum fljótlega eftir áramót að selja þessa lausn, sem kallast upp á íslensku rafbjögunarsía, og er mjög flókið fyrirbæri að segja frá. Þó svo fyrirtækið sé ungt, þá hefur uppfinningamaðurinn unnið í um áratug að þróun þessarar lausnar. Þetta er íslensk uppfinning sem við höfum sótt um einkaleyfi á á alheimsvísu og það mál er komið í ferli í dag. Það sem meira er og skiptir miklu máli fyrir þetta fyrirtæki okkar er að þennan búnað er búið að setja í bæði stórt íslenskt fiskiskip og í fiskvinnslustöð. Þannig að við getum greint frá þeirri dýrmætu reynslu sem komin er á búnaðinn. Það er mikill hugur í okkur í dag en í vetur höfum við verið að undirbúa fjöldaframleiðslu á þessum búnaði og ætlum að framleiða tuttugu til þrjátíu einingar á mánuði“.

Fyrirtækið hefur þegar selt framleiðslu sína fyrir á annað hundrað milljónir króna og er í þessum mánuði að ganga frá umboðsmannasamningum og pöntunum víða um heim.

„Núna erum við að ganga frá samningum við Bandaríkjamenn, Kanadamenn, Norðmenn, Hollendinga og væntanlega Indónesíu. Þá hefur verið stofnuð umboðsskrifstofa í Belgíu“.

Jóhann segir að það sé ekki hægt að neita því að starfsmenn HBT séu að upplifa ákveðið spennufall að vera komnir í gegnum þennan erfiða vetur og framleiðsla sé hafin á vöru fyrirtækisins. Jóhann segir að í vetur hafi átt sér stað gríðarleg vinna í fyrirtækinu og allt verið lagt undir. Það sé stutt síðan fyrirtækið var stofnað, en vara þess sé á leiðinni víða um heim. Á liðnum vetri voru menn stundum áhyggjufullir og áttu ekki alltaf tímanlega fyrir launum. Sem betur fer sé sá tími að baki.

Þeir sem standa að fyrirtækinu eru allt saman mjög reyndir menn með bakgrunn úr viðskiptalífinu eða frá öðrum stöðum. Allir séu reyndir stjórnendur og vanir því að berjast. „Sá reynsluheimur sem býr í fyrirtækinu sé ástæða þess að það sé komið á þann stað sem það er í dag. Það skiptir sköpum að fyrirtækið sé í því jákvæða umhverfi á Ásbrú“. Jóhann segir samstarfið við Nýsköpunarmiðstöðina vera frábært. Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon og hans fólk hjá Nýsköpunarmiðstöðinni hafi staðið þétt við bakið á fyrirtækinu. Þá segir Jóhann að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi reynst fyrirtækinu ómetanlegur. „Það verður að hrósa þeim fyrir framsýni og það að veðja á einhverja framtíð mitt í þessu svartnætti öllu saman. Svona slagur vinnst með því að það eru margir sem koma saman og leggjast á árarnar. Það var samstillt átak margra að tryggja það að þetta skip næði landi og er núna verið að binda örugglega við bryggju,“ segir Jóhann.

„Það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu í dag að vera að skapa störf. Við erum að fara í framleiðslu til útflutnings sem mun skapa gjaldeyristekjur. Framleiðslan mun spara olíu hjá útgerðarfyrirtækjum. Störfin hjá HBT verða sérhæfð störf fyrir bæði verkfræðinga og rafvirkja sem fyrirtækið er að fara að ráða til starfa. Þá er líka gaman að segja frá því að varan á að spara olíuinnkaup til landsins og jafnframt dregur hún úr mengun. HBT er því þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki“. Eftirvæntingin er því mikil og eigendur HBT hafa fundið fyrir miklum áhuga erlendra aðila, bæði á framleiðslunni og að koma að rekstri fyrirtækisins. Eins og staðan er í dag er því mjög þétt dagskrá hjá fyrirtækinu í viðræðum við ýmsa aðila um margt.

Erfitt að fá fjármagn í þróunarvinnu

HBT  hefur ákveðið að einblína á þá framleiðslu sem fyrirtækið er með í dag, því það sé vara sem skili fyrirtækinu fljótt tekjum. Mjög erfitt sé að fá fjármagn í þróunarvinnu og þrátt fyrir áherslu stjórnvalda á nýsköpun og sprotafyrirtæki sé í raun litlu fjármagni varið til málaflokksins, þó svo það sé meira en áður.

„Þó svo HBT hafi fengið þetta fljúgandi start þá breytir það ekki því að það er margra ára ferli alla jafna að sprotafyrirtæki eins og þetta fari að skapa mjög mörg viðbótarstörf. Hins vegar sjáum við fram á það að við getum bætt við fimm starfsmönnum við þá þrettán sem vinna hjá fyrirtækinu í dag. Þá er allt útlit fyrir það að starfsmenn fyrirtækisins verði á milli 35 til 40 í árslok“.

Fjölveiðiskip, verksmiðjur og borpallar

Framleiðsla HBT er stíluð inn á þrjá markaði. Fyrst má nefna fjölveiðiskip, þ.e. skip sem eru með mikið af rafmagnstækjum um borð. Þá eru það frystihús og aðrar verksmiðjur sem nota mikið af rafmagnsbúnaði. Einnig er lausnin frá HBT sniðin að þörfum borpalla, hvort sem þeir eru að bora eftir vatni eða olíu. Við aðstæður þar sem myndast ójafnvægi í rafmagni sem búnaður HBT lagar. Þar verður hinn mikli orkusparnaður til.




Gnúpur GK sparar tonn af olíu á sólarhring


Búnaðurinn hefur verið um nokkurn tíma um borð í Gnúpi GK frá Grindavík og þar er niðurstaðan sláandi, í jákvæðri merkingu. Skip eins og Gnúpur framleiðir sitt rafmagn með aðalvélinni og notar olíu til rafmagnsframleiðslunnar. Eftir að búnaðurinn frá HBT var settur um borð datt álagið á rafmagnskerfið niður og olíueyðsla skipsins fór úr 11 tonnum í 10 tonn á sólarhring.

„Menn sáu það í hendi sér að þetta var góður kostur fyrir útgerðina. Miðað við olíusparnaðinn þá borgar búnaðurinn sig upp á 6 til 14 mánuðum en það fer eftir markaðsverði olíu hverju sinni. Eftir það skilar búnaðurinn sér í sparnaði fyrir útgerðina. Þá minnkar einnig allt slit á rafmagnsbúnaði í skipinu. Rafmótorar sem áður voru sjóðandi heitir voru komnir í snertihæft ástand og tæki í brú skipsins virka mun betur. Menn hafa það á orði að veiðihæfni skipsins hafi aukist,“ segir Jóhann.

Þegar kreppir að í heiminum, þýðir það að stjórnendur fyrirtækja þurfa að ná niður kostnaði og sú vara sem HBT framleiðir hjálpar fyrirtækjum að ná niður kostnaði í formi minni útgjalda í orkukaupum, hvort sem er um að ræða olíu eða rafmagn.

Orð eins og nýsköpun og sprotafyrirtæki hafa verið vinsæl í vetur í kjölfar bankahrunsins. Hvernig gengur að koma sprotafyrirtæki á legg í því ástandi sem hefur ríkt síðustu mánuði?

„Það skipti gífurlega miklu máli sá stuðningur sem við fengum frá Nýsköpunarsjóði í formi þess húsnæðis sem við erum í hér á Ásbrú. Við erum í mjög góðu húsnæði sem við þurfum að borga mjög vægt verð fyrir. Það er ómetanlegt fyrir fyrirtæki sem er að fara af stað að komast í slíka aðstöðu. Hér er í boði þjónusta fyrir fyirtæki sem gerir það kleift að fyrirtæki geta byrjað strax að starfa.

Krafist staðgreiðslu

Hins vegar hafa aðrir hlutir komið á óvart. Ég tek sem dæmi þegar við keyptum tölvur fyrirtækisins. Við fengum þær afgreiddar til okkar í miðju bankahruninu og menn þurftu að átta sig á því á hvaða gengi þær væru og því voru þær settar í reikning hjá viðkomandi fyrirtæki. Þegar síðan kom að því að setja tölvurnar í rekstrarleigu, eins og venjan er í dag um slíkan búnað, kom í ljós að sprotafyrirtæki hafa ekki rekstrarsögu. Við urðum því að staðgreiða þennan búnað. Það kom okkur einnig á óvart að við fengum hvergi fyrirgreiðslu fyrir nýtt fyrirtæki. Við vorum því verr settir en fyrirtæki í hefðbundnum rekstri og þurftum að staðgreiða allar vörur og ef við þurftum að panta eitthvað frá útlöndum þá þurftum við að borga það fyrirfram. Þetta er hluti af því vantrausti sem ríkti í viðskiptalífinu. Það voru allir að tryggja það að þeir myndu ekki tapa neinu. Maður skilur þetta að vissu leyti en fyrir sprotafyrirtæki að fara af stað við þessar mjög sérstöku aðstæður var mjög sérstakt og það að við skulum hafa haft okkur í gegnum þennan vetur í raun með ólíkindum. Við erum svolítið eins og frækornið sem náði að skjóta rótum og brjóta sér leið upp um sprunguna í malbikinu“.

Ábyrgðarsjóður lausnin?


Það vantar þá að ríkið eða Nýsköpunarsjóður hafi ábyrgðarsjóð fyrir sprotafyrirtæki sem hafa ekki rekstrarsögu, svo þau geti fjárfest í þeim búnaði sem þarf til að koma fyrirtækjum af stað?

„Ég held að þetta sé nákvæmlega málið. Ég kalla eftir því að hin svokölluðu sprotafyrirtæki séu ekki verr sett en fyrirtæki í hefðbundnum rekstri og þá þarf það sem þú nefnir, einhvers konar ábyrgðarsjóð, sem myndi ganga í ábyrgð fyrir kaupum á vöru eða þjónustu sem þarf til að hleypa sprotafyrirtæki af stokkunum. Ef svo sprotafyrirtækið nær ekki landi, þá yrði tölvubúnaðurinn í þessu tilviki, eign þessa sjóðs sem síðan gæti þá úthlutað búnaðinum áfram til næsta sprotafyrirtækis“.

Mikið skrifræði

„Það verður að segjast að okkur hefur verið mjög vel tekið hvert sem við leitum en sprotafyrirtæki geta sótt um ýmsa styrki til að koma sér úr vör. Þessu fylgir hins vegar mikið skrifræði og fjármagnið kemur í litlum skömmtum sem dreifist á langan tíma. Fyrirtæki eins og okkar þarf aðstoð í gegnum eitthvað ákveðið krítískt tímabil en eftir það erum við sjálfbærir“.

Jóhann segir að hann finni að iðnaðarráðherra, Nýsköpunarmiðstöð og þeir aðilar sem koma að málefnum sprotafyrirtækja og nýsköpunar er að vaxa styrkur og þær miðstöðvar sem Nýsköpunarsjóður er að setja upp víða um land er sprotafyrirtækjum ómetanlegur. „Það er örugglega hægt að segja það að þetta umhverfi sprotafyrirtækja er að stórbatna þó svo það sé enn verk að vinna. Þessi starfsemi sem er hér í Eldey er til marks um það að þessi starfsemi er að skila okkur uppskeru. Það verður að segjast eins og er að okkur líður vel að finna að það er stutt við bakið á okkur. Við finnum að þetta er kappsmál hjá Nýsköpunarmiðstöðinni, Keili, Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og frá öllu umhverfinu. Það er Íslendingum kappsmál að sjá jákvæða hluti gerast og okkur er svo mikilvægt við þessar aðstæður að sjá ný störf verða til. Við erum öll svolítið marin eftir umræðuna sem var í vetur“.



Horfa til frekari uppbyggingar á Ásbrú

Jóhann segir að það hafi frá fyrsta degi verið ákvörðun að setja fyrirtækið á stofn á Suðurnesjum og fá aðstöðu fyrir það á Ásbrú. Honum hafi líkað vel að vinna hér suðurfrá, þekki vel til svæðisins og áhugavert að fá að starfa áfram á Suðurnesjum. Varðandi næstu skref hjá HBT, þá segir Jóhann að menn séu að sjálfsögðu farnir að horfa inn í framtíðina. Hann vonast til þess að fyrirtækið fái að vera eins lengi og þurfa þykir með aðsetur í Eldey á Ásbrú undir verndarvæng Nýsköpunarmiðstöðvar, en þegar hafi fyrirtækið átt óformleg samtöl við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (KADECO) sem hefur tekið þeim vel, eins og vænta mátti. „Við horfum til þess að uppbygging fyrirtækisins eigi sér til framtíðar stað á Ásbrú“. Pantanir séu farnar að berast og fyrirtækið sjái þegar fram á það að það verði einhver afgreiðslufrestur á vöru fyrirtækisins, þannig að það eru næg verkefni framundan.

Þeir sem vilja kynna sér HBT hf  nánar geta farið inn á www.hbtinternational.com en þar er einnig að finna form til að sækja um atvinnu hjá fyrirtækinu, sem leitar eftir rafvirkjum í samsetningu á þeim búnaði sem HBT framleiðir.


Texti og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024