Fiskurinn er alltaf vinsæll
-Ferðamenn sækja í fiskinn í Salthúsinu í Grindavík
Þorlákur Guðmundsson er eigandi Salthússins í Grindavík, hann hefur rekið veitingastaðinn í tæp tíu ár og hefur gengið vel frá því hann tók við. Þorlákur segir að fyrstu árin hafi verið róleg en síðan hafi verið stígandi hjá þeim, sérstaklega með auknum ferðamannastraumi. Blaðamaður Víkurfrétta hitti Þorlák á dögunum á Salthúsinu þar sem spjallað var um fiskinn, ferðamennina og framtíðina.
Ferskur fiskur daglega
Þegar Þorlákur er spurður hvað sé vinsælasti rétturinn þá er hann fljótur að svara að það sé fiskur dagsins. „Við erum með fisk dagsins en hann hefur alltaf selst vel, við erum ekki alltaf með sama fisk, tegund eða fiskréttinn þannig að það er fjölbreytni hjá okkur.“ Þorlákur verslar meðal annars fisk hjá Þorbirni í Grindavík en hann segir að þau séu afar heppin með það að geta sótt ferskan fisk nánast hvenær sem er.
Saltfiskinn sækir Þorlákur hinsvegar norður þar sem hann er verkaður á gamla mátann. „Ég hef verið með saltfiskrétti og saltfisk frá upphafi en hann hefur notið mikilla vinsælda frá því að við opnuðum.“
Gestir koma víða að
Vinsældir ferðamanna á Salthúsið má meðal annars rekja til góðs orðspors, bæði frá ferðaskrifstofum og leiðsögumönnum. „Ég hef ekki þurft að auglýsa mig mikið en leiðsögumenn segja frá okkur og láta aðra vita af okkur þannig að orðspor okkar hefur spurst mikið út ásamt því að við erum í góðu samstarfi við ferðaskrifstofur.“
Fjölmargir hópar koma á hverju ári á Salthúsið en Bandaríkjamenn eru stærstu viðskiptavinirnir ásamt stórum hópum í gegnum ferðaskrifstofur. „Hér, fyrir ekki svo löngu síðan, vorum við meðal annars með þúsund skólakrakka frá Bandaríkjunum í gegnum Iceland Travel en við fáum ferðamenn alls staðar af, hér hafa meðal annars borðað hjá okkur hópar og einstaklingar frá Tævan, Japan og Kína.“
Samfélagsmiðlar og internetið mikilvægt
Þorlákur segir að samfélagsmiðlar og internetið skipi einnig stóran sess í því hversu vel gangi hjá þeim. „Hingað droppa ferðamenn oft inn en þeir hafa þá fengið afspurn af okkur í gegnum Trip Advisor eða aðra miðla. Svo hefur landslagið einnig breyst töluvert hér í Grindavík á síðastliðnum tíu árum en fjölmörg gistirými eru hér í Grindavík sem var ekki áður fyrr og gestir þeirra koma til okkar til að borða.“
Lokað tvo daga á ári
Nálægðin við Bláa lónið er einnig mikilvæg að sögn Þorláks en þau sækja gesti þangað sem eru annað hvort að fara í Lónið eða fara upp úr en það er þá hluti af skipulagðri ferð hjá þeim í gegnum ferðaskrifstofu. „Síðan skiptir líka máli að standa sig, viðskiptavinirnir þurfa að vera ánægðir en það er gaman að segja frá því að einn hópur sem var hjá okkur um daginn gaf okkur 9,6 í einkunn sem var það hæsta sem var gefið í könnuninni sem hópurinn tók og þar var tekið mið af allri þeirri þjónustu sem hópurinn upplifði. Við fáum líka alltaf að vita hvað við getum lagað og ef það er eitthvað sem þarf að bæta, sem er mikilvægt fyrir okkur.“ Á Salthúsinu eru sjö fastráðnir starfsmenn en veitingasalurinn skiptist í einn stóran sal, annan lítinn sem hægt er að loka og efri hæð. Á árum áður var töluvert um böll en sá markaður hefur breyst en þó eru alltaf fastir viðburðir og böll um sjómannahelgina og hið árlega Geimfaraball fer einnig fram á Salthúsinu á milli jóla og nýárs. „Ég er með opið alla daga ársins, nema aðfangadag og jóladag. Það er meira að segja opið hjá okkur á gamlársdag og nýársdag en ég hef nú þegar fengið pöntun fyrir gamlársdag.“
Fréttir af fækkun ferðamanna hafa verið á fjölmörgum miðlum undanfarna mánuði en Þorlákur segist ekki finna fyrir því, það sé vel bókað hjá þeim fram í tímann en hann er nú þegar farinn að taka við bókunum fyrir næsta ár. „Við finnum líka fyrir aukinni kröfu um verð en það er dýrt að koma til Íslands og við höfum passað upp á það að vera með sanngjarnt verð í gegnum tíðina.“