Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Viðskipti

Fiskur og franskar með ljúffengri Issa-sósu
Jóhann Issi Hallgrímsson og Hjördís Guðmundsdóttir í veitingavagninum í Grindavík.
Laugardagur 1. júlí 2017 kl. 08:00

Fiskur og franskar með ljúffengri Issa-sósu

-Issi og Hjördís opna tvo veitingavagna á Suðurnesjum

Grindvíkingar hafa tekið vel á móti nýjung í bæjarfélaginu sem er veitingavagn sem hjónin Hjördís Guðmundsdóttir og Jóhann Issi Hallgrímsson hafa komið upp á hafnarsvæðinu neðan við menningarmiðstöðina Kvikuna.
 
Þar hafa þau steikt fisk og franskar eins og enginn sé morgundagurinn frá því í byrjun júní. Veitingavagninn er gamall draumur Issa sem nú hefur orðið að veruleika.
 
Veitingavagnarnir verða tveir. Sá fyrsti er kominn til landsins og er staðsettur í Grindavík. Hinn verður á Fitjum í Reykjanesbæ og opnar á næstu dögum en Issi og Hjördís eru nú að leita að starfsfólki í vagnana.
 
„Það var kominn tími á að fara að gera eitthvað og ég tel að það sé þörf á svona vögnum og að geta fengið sér fisk og franskar, ódýrt í bakka og setjast út í góða veðrið,“ segir veitingamaðurinn Jóhann Issi í samtali við Víkurfréttir.
Hann segist vera með eðal hráefni frá Þorbirni í Grindavík. Þaðan kemur ferskur fiskur til djúpsteikingar. Þá verður bætt á matseðilinn sjávarréttasúpu með saltfiski frá Sílfelli ehf. í Grindavík.
 
Móttökurnar í Grindavík hafa verið framar björtustu vonum og segir Jóhann Issi að um leið og það fari að róast í Grindavík og starfsfólkið hafi náð góðum tökum á matargerðinni, þá verði veitingavagn opnaður á Fitjum í Reykjanesbæ. „Ég veit ekki alveg hvernig ég ætla að fara að þessu en þetta mun verða að veruleika,“ segir veitingamaðurinn og brosir út í annað.
 
Fiskur og franskar hafa verið lengi innan fjölskyldu Issa, því sagan segir að afi hans hafi verið fyrstur til að selja breska setuliðinu fisk og franskar á Akureyri árið 1942. Það hafi reyndar ekki endað vel, því hann hafi farið á djammið með Bretunum, gleymt að slökkva á djúpsteikingarpottinum og veitingastaðurinn brunnið.
 
Jóhann Issi segir galdurinn á bakvið fisk og franskar vera gott hráefni. Hann fái sjófrystan fisk frá Þorbirni. „Þeir eru sérfræðingar í þessu hráefni. Þeir eru mikið að vinna fyrir breskar keðjur sem selja fisk og franskar og sérpakka fiski fyrir þá. Ég hef há markmið og ætla að gera betur en Bretinn úr mínum hugmyndum og þessu eðal hráefni.“
 
Aðspurður hvernig hafi gengið fyrstu dagana, segir Jóhann Issi að móttökurnar hafi verið ótrúlegar. Þá hafi margir lagt hönd á plóg til að láta verkefnið verða að veruleika. Hann hafi verið afétinn tvisvar þegar hann opnaði vagninn til prufu. Hann hafi þó alltaf náð að útvega meira hráefni og fengið frábærar viðtökur. Blaðamaður Víkurfrétta er kröfuharður þegar kemur að fiski og frönskum. Hann getur staðfest að það sem Issi er að gera er á pari við það besta sem er í boði í djúpsteiktum fiski. Deigið er stökkt og bragðgott og þá er Issa-sósan „rúsínan í pylsuendanum“.
 
Veitingavagnarnir verða ekki opnir allt árið. Þeim verður haldið opnum eitthvað inn í haustið en næsta vetur ætlar Issi að bjóða upp á að hann komi í fyrirtæki eða á uppákomur og steiki fisk og franskar fyrir hópa. Vagnarnir verði svo teknir fram aftur næsta vor og haldið áfram þar sem frá verður horfið í sumar. Issi og Hjördís hafa samið um fasta staðsetningu neðan við Kvikuna í Grindavík en staðsetningin á Fitjum í Reykjanesbæ er til bráðabirgða fram á haustið. Óvíst er hvað gerist þar næsta sumar.


Issi Fish&Chips í Grindavík. Samskonar vagn opnar á Fitjum í Reykjanesbæ á næstu dögum.


 
Fish&Chips með hinni rómuðu Issa-sósu.
 
Public deli
Public deli