Fiskisúpuveisla á Básvegi í dag
Bárður Steingrímsson fisksali til 20 ára og síðast togaraskipstjóri hefur opnað fiskbúð við Básveg 7 í Keflavík. Fiskbúðin heitir Sæbær og er opin alla virka daga. Í tilefni af opnun fiskbúðarinnar í þessari götu, sem áður blómstraði af lífi sem tengdist sjávarútvegi og fiskvinnslu, þá ætlar fisksalinn að bjóða upp á fiskisúpuveislu og harmonikuspil í dag, föstudag, milli kl. 16 og 18 og eru allir velkomnir.
Bárði er fisksalan í blóð borin því faðir hans var fisksali í Reykjavík í hálfa öld. Í samtali við blaðið sagðist hann fara rólega af stað og myndi auka úrvalið í fiskborðinu jafnt og þétt, eftir því sem viðskiptin aukast. Bárður verður bæði með heildsölu og smásölu en síminn hjá Sæbæ er 868 4631.