Fimmtungi fleiri ferðir til útlanda
Lággjaldaflugfélögin Easy Jet og Norwegian hafa tvöfaldað umsvif sín hér á landi milli ára. Icelandair er þó enn langstærsta flugfélagið. Þetta kemur fram í samantekt á vefnum Túristi.is.
Í apríl voru farnar 833 áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli sem er aukning um rúm tuttugu prósent frá sama mánuði í fyrra. Þá stóð Icelandair fyrir tæplega átta af hverjum tíu ferðum en nú er hlutfallið komið niður í sjötíu og tvö prósent líkt og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Fyrirtækið hefur samt sem áður fjölgað ferðum sínum töluvert milli ára en það hafa hin félögin líka gert.
Wow Air hefur til að mynda nærri tvöfaldað framboð sitt frá því í apríl í fyrra og ferðir á vegum Easy Jet og Norwegian eru tvöfalt fleiri.
Vægi flugfélaganna í apríl 2014:
Icelandair: 71,8%
Wow Air: 12,2%
Easy Jet: 7,7%
SAS: 3,6%
Norwegian: 2,5%
Air Greenland: 1,1%
Primera Air: 1,1%