Filma.is opnar dyr fyrir Íslendinga erlendis
Filma.is hefur opnað dyr sínar fyrir Íslendingum sem staðsettir eru erlendis en núna er hægt að leigja íslenskar kvikmyndir og þætti á netinu. Úrvalið byrjar takmarkað en unnið er hörðum höndum að því að stækka það á komandi mánuðum. Hægt er að leigja þættina Mannasiðir Gillz, Ameríski Draumurinn, Hamarinn og Steindinn okkar og svo má helst nefna kvikmyndir eins og Blóðbönd, Börn Náttúrunnar, Bíódagar, Englar Alheimsins o.fl.
Filma.is er íslensk síða þar sem hægt er að leigja stórt úrval af kvikmyndum og þáttum á netinu. Hún er fyrsta síða sinnar tegundar á Íslandi og tekur mið af erlendum síðum á borð við Netflix, iTunes og Amazon VOD. Með þessu er verið að koma til móts við Íslendinga sem eru annað hvort búsettir erlendis eða eru að ferðast og vilja geta nálgast íslenskt afþreyingarefni í gegnum netið.
Hægt er að nálgast heildarlista yfir það efni sem er í boði á fréttasíðu Filma.is