Fida tilnefnd til tvennra verðlauna
Nýsköpunarfyrirtækið GeoSilica á Ásbrú og frumkvöðullinn og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Fida Abu Libdeh, eru tilnefnd til verðlaunanna Nordic Startup Awards. GeoSilica er tilnefnt í flokknum „Best bootstrapped“ og Fida í flokknum „Founder of the Year“. Hægt er að kjósa hér.
Þá er ekki allt upptalið því Fida er einnig tilnefnd til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísis árið 2016. Yfir sextíu stjórnendur hafa verið tilnefndir og verða þrír útnefndir. Verðlaunin verða veitt 12. apríl næstkomandi.
Víkurfréttir völdu Fidu „Mann ársins á Suðurnesjum 2014“. Hún flutti 16 ára frá Palestínu til Íslands, gekk í menntaskóla í Reykjavík en náði ekki að ljúka stúdentsprófi vegna erfiðleika með íslenskuna. Hún vildi mennta sig meira og gera meira á lífsleiðinni en var komin í öngstræti þegar hún uppgötvaði háskólabrú í Keili á Ásbrú. Þar var hún greind með lesblindu og fékk viðeigandi hjálp til að halda áfram að læra. Það gerði hún með stæl, lauk stúdentsprófi og síðan í framhaldinu þriggja ára háskólanámi í umhverfis- og orkutæknifræði. Hún stofnaði síðan frumkvöðlafyrirtæki með skólafélaga sínum Burkna Pálssyni og hafa þau sett á markað hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli. Hún lét ekki þar við sitja á menntunarbrautinni heldur fór samhliða vinnu sinni í nýja fyrirtækinu í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík. Það var ekki alveg nóg því hún bætti við þriðja barninu en hún er gift Jóni Kristni Ingasyni viðskiptafræðingi. Fjölskyldan býr á Ásbrú og var með fyrstu íbúunum sem flutti þangað árið 2007.