Ferskur íslenskur barnamatur beint úr Garðinum
Í fyrsta skipti á Íslandi er nú fáanlegur ferskur íslenskur barnamatur í verslunum um allt land. Barnavagninn ehf hefur sett á markað vörulínu sem byggist á sex tegundum ferskra maukaðra ávaxta og íslensks grænmetis. Framleiðslan fer fram í Garðinum á Suðurnesjum og skapar að jafnaði vinnu fyrir 3-4 heimamenn.
Verlsanir Bónus, Krónunnar, Hagkaups og Nóatúns selja vörurnar frá Barnavagninum sem er í eigu Ávaxtabílsfjölskyldunnar og Eignarhaldsfélags Suðurlands, en Ávaxtabíllinn hefur um árabil sérhæft sig í dreifingu á ávöxtum, hollum skyndibita og heitum mat til fyrirtækja.
„Með þessu er brotið blað í sögu framboðs á barnamat á Íslandi, en hingað til hefur aðeins fengist innfluttur eða frosinn barnamatur sem seint getur talist ferskvara,” segir Haukur Magnússon, stofnandi Ávaxtabílsins og Barnavagnsins. „Með þessu móti er ekki einungis verið að bjóða upp á nýjung í flóru íslenskrar matælaframleiðslu, heldur einnig verið að styðja við atvinnulíf á Suðurnesjum og stuðla að uppbyggingu á mikilvægum tíma.”
Íslenskt hráefni er meginuppistaðan í barnamatnum. Um er að ræða sex tegundir af barnamat; rófur – gulrætur - bananar og döðlur – gulrætur, rófur og kartöflur – Sveskjur - epli. Verðið á hverja dós er 199 krónur í lágvöruverslunum.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði segir fyrirtækið skipta mjög miklu máli fyrir bæjarfélagið: „Það er bæði móralskt jákvætt fyrir okkur að hingað komi fyrirtæki úr öðrum geira og þjónustu en við erum vön og þó einhverjum finnist starfsmannafjöldinn lágur, þá jafnast þetta á við að 40 manna fyrirtæki hæfi starfsemi í Reykjavík. Við bindum miklar vonir við Barnavagninn og lítum á fyrirtækið sem eitt mikilvægra tækifæra til framtíðar hér á Suðunesjum.”
Haukur bætir við að Barnamaturinn – beint úr Garðinum færi ferska vinda frá Suðurnesjum og sé vonandi aðeins lognið á undan storminum.