Ferskur íslenskur barnamatur - beint úr Garðinum
Í fyrsta skipti á Íslandi er nú fáanlegur ferskur íslenskur barnamatur í verslunum um allt land. Barnavagninn ehf hefur sett á markað vörulínu sem byggist á sex tegundum ferskra maukaðra ávaxta og íslensks grænmetis. Framleiðslan fer fram í Garðinum á Suðurnesjum og skapar að jafnaði vinnu fyrir 3-4 heimamenn.
Haukur Magnússon, framkvæmdastjóri Barnavagnsins, segir í samtali við Víkurfréttir að hann hafi verið búinn að vera með þessa framleiðsluhugmynd lengi. Hann hafi hins vegar ekki haft það fjármagn sem þurfti til að framkvæma hugmyndina. Hann sagði að annað hvort hefði hann þurft að afskrifa hugmyndina eða leita út fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem vantaði atvinnu og uppbyggingu. Haukur segist hafa byrjað á að ræða við Árna Sigfússon í Reykjanesbæ en eftir ákveðið ferli hafi fyrirtækið endað í Garðinum með aðkomu Eignarhaldsfélags Suðurnesja. Haukur segir að Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri og bæjarfulltrúinn Gísli Heiðarsson eigi stóran þátt í því að fyrirtækið hefði hafið starfsemi í Garði.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði segir fyrirtækið skipta mjög miklu máli fyrir bæjarfélagið:
„Það er bæði móralskt jákvætt fyrir okkur að hingað komi fyrirtæki úr öðrum geira og þjónustu en við erum vön og þó einhverjum finnist starfsmannafjöldinn lágur, þá jafnast þetta á við að 40 manna fyrirtæki hæfi starfsemi í Reykjavík. Við bindum miklar vonir við Barnavagninn og lítum á fyrirtækið sem eitt mikilvægra tækifæra til framtíðar hér á Suðunesjum. Við tökum eigendum fyrirtækisins fagnandi og teljum að Garðurinn sé rétti staðurinn fyrir þetta fyrirtæki. Hér er rólegt og friðsælt. Hér er hreinlegt og það er í stíl við þessa vöru sem fyrirtækið framleiðir. Þetta er akkúrat staðurinn til að vera móðurstöð fyrir þennan barnamat,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði. Nánar er fjallað um málið í Víkurfréttum í dag.
Mynd: Haukur Magnússon og Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði