Ferðaþjónustufyrirtæki á Ásbrú í samstarfi um fræðslu
	Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og fjögur ferðaþjónustufyrirtæki á Ásbrú undirrituðu samning um greiningu fræðsluþarfa hjá fyrirtækjunum. Verkefnið er fyrsta klasaverkefnið sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og er ætlað að auka hæfni starfsmanna í fyrirtækjunum.
	Fyrirtækin sem mynda klasann eru Bed & Breakfast hótel, Base hótel, Eldey hótel og Start hostel. Öll eru þessi fyrirtæki á Ásbrú í nálægð við Keflavíkurflugvöll.
	Fyrirtækin eru gæða gististaðir með afslappað andrúmsloft, mikinn metnað og stefna að því að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu. Þau hafa metnað til að vera í fremstu röð í þeirri stórhuga uppbyggingu sem er á svæðinu. Með því að fjárfesta í hæfni starfsfólks með fræðslu og þjálfun telja fyrirtækin að þau auki gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi.
	Með aukinni samvinnu sjá fyrirtækin tækifæri til að auka hæfni starfsmanna sinna á hagkvæman hátt og deila reynslu í því skyni að bæta enn frekar góða þjónustu sína við ferðamenn.
	MSS sér um framkvæmd verkefnisins.  Þörfin fyrir þjálfun og fræðslu í fyrirtækjum verður metin og greind og í kjölfarið útbúin fræðsluáætlun eftir þörfum og óskum hvers fyrirtækis og í samráði við stjórnendur og starfsmenn. MSS sér um að koma áætluninni í framkvæmd í nánu samstarfi við fyrirtækin og á forsendum þess.
				
	
				

 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				