Ferðaþjónustan er ennþá í vexti
Gunnar Hörður Garðarson, verkefnastjóri Markaðsstofu Reykjaness, segir að það sé búin að vera mikil og góð uppbygging hér á Reykjanesinu þegar kemur að því að kynna svæðið fyrir ferðamönnum. Alltaf sé þó hægt að gera betur en að öllum líkindum erum við búin að toppa okkur þegar kemur að fjölda ferðamanna á ári á Íslandi en það sé þó erfitt að spá fyrir um það. Árið 2018 verður naflaskoðunarár í ferðaiðnaði hér á Reykjanesinu telur Gunnar og hann segir einnig að það sé mikilvægt fyrir svæðið að finna út úr því hvaða sérstöðu það vilji hafa sem svæði.
Gott aðgengi mikilvægt á ferðamannastöðum
Hér á Suðurnesjum er ferðaþjónustan ennþá í vexti, eflaust hafa einhverjir heyrt fréttir af því að það hafi dregið úr straumi ferðamanna en Gunnar segir að það sé ekki alveg rétt. „Það er minni fjölgun en hefur verið síðustu ár en það þýðir samt ekki að það séu færri, ferðamönnum er ennþá að fjölga. Nánast allir sem koma til landsins koma inn á svæðið hér á Suðurnesjum, sumir stoppa í Flugstöðinni og of margir fara framhjá. Hér á Suðurnesjum eru 3300 rúm og það gista mjög margir hér. Það sem okkur hefur helst skort upp á er að halda ferðamönnum lengur á svæðinu.“
#Gunnuhver
Bílateljarar eru inn á helstu ferðamannasvæðin hér á Reykjanesinu og á síðasta ári var örlítil fækkun miðað við niðurstöður teljarana, samt sem áður er ótrúlegt magn gesta sem eru að koma inn á svæðið. „Í fyrra opnuðum við nýjan pall við Brimketil sem er staðsettur fyrir utan Grindavík og hann hefur verið mjög vinsæll meðal ferðamanna og ekki síst fyrir Instagrammara.“ Við Brimketil var settur upp mælir og sló hann öll met sem nýr áfangastaður og heimsóttu 15.000 manns hann í ágúst á síðasta ári. Fólk hefur mikinn áhuga á landsvæðinu og því sem er þar í kring.
„Þegar við erum að byggja upp nýja áfangastaði er mikilvægt að halda athygli fólks, því fólkið sem kemur inn á svæðið dvelur lengur ef það hefur eitthvað að gera og það er það sem uppbygging áfangastaða hefur mest snúist um síðastliðin ár og heldur sú vinna áfram í ár. Hér í kringum okkur er mjög mikið af fallegum stöðum.
Garðskagaviti er myndvænn og gott aðgengi að honum
Garðskagavitinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna sem heimsækja Reykjanesið og jafnvel sá vinsælasti en það voru um 40.000 manns sem heimsóttu Garðskagann á mánuði í fyrra. „ Við vorum með spurningar þar sem að fólk var spurt að því hvar það kæmi oftast og það sagði Reykjanesviti en það meinti Garðskagaviti og það var vegna þess að það gerði ekki greinarmun á vitunum og við komumst ekki að því fyrr en við fórum að vera með bílatalningar, hver munurinn var í raun og veru á þessum tveimur stöðum.
Garðskagavitinn er myndvænn og aðgengilegur en mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu, Gunnar segir það líka kost hversu aðgengilegur hann sé. „Aðgengi er annað atriði sem við höfum verið að vinna með Reykjanes Geopark og sveitarfélögunum. Það er að vinna saman til að merkja svæðið betur og gera allt aðgengilegra og skipuleggja þann þátt betur. Þannig að fólk viti líka í rauninni hvert það á að fara, hvað er áhugavert að skoða og eins að auka upplýsingarnar á svæðunum, um svæðin. Fólk hefur áhuga á því að vita af hverju „þetta“ er merkilegt.
#Gardskagaviti
Þurfum að auka þjónustuna
Á Reykjanesi eru fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki sem eru með ferðir inn á svæðið en það eru einnig fjölmörg fyrirtæki staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fyrirtæki eru að skipuleggja ferðir inn á svæðið, þeim fer fjölgandi og er áhuginn að aukast. „Það sem mér finnst enn ánægjulegra er að ferðaþjónustusvæðum er að fjölga á svæðinu. Við erum að fá litla hestaleigu í Grindavík, Víkurhestar sem opna fyrir sumarið. Svo er Axel hjá Whale watching Reykjavík í Grófinni að fara að bæta við sig öðrum bát þannig að það er að stækka.
Vogasjóferðir eru að fara að byrja í sumar í Vogum og þrátt fyrir það að við séum að heyra fréttir að það sé að hægja á þá er ennþá vöxtur í gangi. Ef við höldum áfram að fjölga þjónustufyrirtækjum og ekki bara hótelum, heldur líka að við getum tekið á móti fólki í góðum mat á góðum veitingastöðum eins og til dæmis Library og öðrum sem hafa verið að opna á svæðinu og bæta við sig þjónustu og þessum afþreyingarfyrirtækjum, þá höldum við fólki lengur á svæðinu og þá fjölgar líka gistinóttum.“
#Brimketill
Kynna Reykjanesið fyrir heimafólki
Margir ferðamenn stoppa á Íslandi í nokkra klukkutíma á meðan þeir millilenda eða jafnvel í einn sólahring. Gunnar segir að þeir farþegar séu farnir að koma í auknari mæli inn á svæðið þó svo að það séu engar haldbærar mælingar á bakvið það.
„Það fara mjög margir í Bláa lónið enda er það okkar þekktasta vörumerki á Íslandi. Við njótum líka góðs af því að hafa Lónið svona nálægt okkur. Samstarf markaðsstofunnar og Reykjanes Geopark við Bláa lónið er mjög gott. Þau hafa til dæmis líka skipulagt með okkur gönguferðir um Reykjanesið á sumrin og það hefur reynst mjög vel, kynna Reykjanesið og þau svæði sem eru hér í kring líka fyrir fólki sem að býr hér því oft veit fólk ekki nógu mikið um heimahagana. Það verður mjög spennandi að vinna þetta áfram.“
Þarf að beina ferðamönnum í rétta átt
Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa sótt sameiginlega í byggingarsjóð ferðamannastaða og er stefnt að því að hefja uppbyggingu í kringum Gunnuhver fyrir sumarið þar sem að umferðinni verður stýrt betur. Haldinn var vetrarfundur á dögunum þar sem að yfirskriftin var ábyrg ferðaþjónusta en Gunnar segir að hún skipti gríðarlega miklu máli. „Það skiptir miklu máli að beina ferðamönnum á rétta slóð og hafa þá staði sem eiga að taka á móti miklum fjölda aðgengilega, hafa upplýsingar um hvar er óhætt að vera og hvar er hættulegt að vera. Upplýsingarnar þurfa að vera mjög skýrar, en það hefur reynst erfitt að fjármagna það og er mikil þörf á að gera betur í því. Fjármagn fyrir slíkar aðgerðir koma að mestu leyti frá ríkinu og verða vonandi í mun meiri mæli í framtíðinni.“
#Reykjanesviti #Reykjanes #VisitReykjaes
Reykjanesviti 110 ára í ár
Unnið er að deiliskipulagi á Garðskaga þar sem að bæta þarf úr innviðum þar til taka betur á móti fólki þangað enda sé ákveðið mikið magn af fólki sem svæðið þoli.
„Það er ákveðið magn af fólki sem við þolum að taka á móti á svæðinu, það verður skemmtilegt að sjá hvernig uppbyggingin verður. Svo er stefnt að því að gera stíg upp að Reykjanesvita, vegurinn verður gerður akfær enda krefst Vegagerðin þess, þannig verður aðgengið betra fyrir alla. Reykjanesviti hefur verið í uppbyggingu en hann verður 110 ára í ár og við vonumst til þess að hann verði opnaður fyrir gesti að einhverju leyti í sumar í tilefni afmælisins.“
Skipuleggja sig með tveggja ára fyrirvara
Ferðamenn og þeir gestir sem heimsækja landið eru duglegir að skipuleggja sig sjálfir áður en þeir koma og eru lítið að taka skyndiákvarðanir. „Við höfum verið í auknum mæli að fara í blaðamannaferðir og áhrifavaldaferðir með Íslandsstofu og fáum þar að leiðandi tengingu við sterka miðla úti í heimi. Erum að horfa á Bandaríkja-, Kanada- og Bretlandsmarkað en höfum líka verið að fá blaðamenn frá Skandinavíu og Þýskalandi. Lang oftast eru gestir okkar búnir að ákveða hvað þeir ætla að gera og til dæmis í ár vorum við að vinna vinnu sem skilar sér eftir tvö ár. Það er alveg fyrirvarinn sem fólk er að panta sínar ferðir.“
#Bluelagoon
Samfélagsmiðlar sterk markaðstæki
Samfélagsmiðlar eru sterkir þegar kemur að markaðssetningu og hefur Markaðsstofa Reykjaness verið dugleg að nota þá miðla sem eru vinsælir. „Við notum Instagram og Facebook langmest, höfum verið að deila fallegum myndum af Instagram áfram því hingað kemur mikið af hæfileikaríku fólki inn á svæðið sem tekur gullfallegar myndir. Værum til í að geta verið með meiri pening sem fer í efnissköpun og þannig gætum við nýtt þessa miðla til að kynna svæðið. Þannig að fólk finni réttar upplýsingar. Það er nóg að gera og starfið mun halda áfram og ferðaþjónustuaðilar okkar á svæðinu eru að vinna virkilega gott starf og það verður gaman að sjá það blómstra áfram.
„Ég spái því að árið 2018 verði naflaskoðunarár hjá okkur og við þurfum að skoða hvað við getum gert betur, því að við vitum að það mun ekki halda endalaust áfram að fjölga ferðamönnum hjá okkur og við erum hugsanlega búin að toppa eða að öllum líkindum, en það er erfitt að spá til um það. Við þurfum líka að skoða hvaða sérstöðu við viljum hafa sem svæði. Við áttum opna íbúafundi með öllum íbúum svæðisins í byrjun árs með í öllum sveitarfélögum hér á svæðinu þar sem að við fengum að heyra hver hugsun þeirra var eftir að við kynntum hvaða starf er búið að eiga sér stað. Ég held að það samtal þurfi líka að halda áfram, hvert við viljum stefna með ferðaþjónustuna hér og hvernig við viljum nýta þetta til að verða betra samfélag.“