Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Farþegum um Keflavíkurflugvöll hefur fækkað um 11%
Föstudagur 27. desember 2002 kl. 10:16

Farþegum um Keflavíkurflugvöll hefur fækkað um 11%

Heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll fyrstu ellefu mánuði ársins var 1.157.440, samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn á vellinum. Þetta er 11% fækkun frá sama tíma í fyrra er heildarfjöldinn var 1.298.806. Útlit er fyrir að svipaður fjöldi farþega fari um völlinn í þessum mánuði og í fyrra, eða um 60 þúsund. Þrátt fyrir fækkun farþega hefur sala Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. haldist nokkurn veginn í horfinu en veltan fyrstu ellefu mánuði ársins var 3,3% minni en í fyrra. Inni í þeim tölum er ekki velta verslana á brottfararsvæði, m.a. Íslensks markaðar, veitingasölunnar, Saga Boutique og fleiri aðila, en velta þeirra dróst saman um tæp 8%.Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, bendir á í Morgunblaðinu í dag að fækkun farþega um 11% segi ekki alla söguna. Máli skipti hvaða farþegar séu skoðaðir og hvernig tekist hafi að selja þeim vörur og þjónustu í flugstöðinni. Höskuldur bendir á að mun færri svonefndir skiptifarþegar hafi farið um Leifsstöð á árinu, eða 226 þúsund nú miðað við um 314 þúsund í fyrra, fækkunin fyrstu ellefu mánuðina nemi 28%. Á sama tíma hafi farþegum sem komi beint til Íslands, eða fari héðan til útlanda, fækkað um 5%. Það séu þeir farþegar sem skipti mestu fyrir tekjustreymi í flugstöðinni. Frá janúar til nóvember komu ríflega 466 þúsund flugfarþegar til landsins og héðan flugu ríflega 463 þúsund manns. Á fyrstu ellefu mánuðunum 2001 lentu tæplega 493 þúsund farþegar á Keflavíkurflugvelli og þaðan fóru 491 þúsund manns.

8% meiri sala á hvern farþega
Tekjur fríhafnarverslunar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. námu, að sögn Höskuldar, 3,3 milljörðum króna fyrstu ellefu mánuðina samanborið við 3,4 milljarða í fyrra. Höskuldur segist vera ágætlega sáttur við þessa útkomu. Mestu skipti að sala á hvern farþega hafi aukist milli ára, eða um 8,3%. Hann segir skýringarnar annars vegar aukið markaðs- og kynningarstarf og hins vegar breytta samsetningu farþega um flugvöllinn.

Ljósmynd: Mats
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024