Farþegum fjölgaði mest hér á landi
- Nærri 2,4 milljónir farþega til og frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári.
Það fóru nærri 2,4 milljónir farþega til og frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári og fjölgaði þeim um nærri þrettán prósent milli ára. Stærstu flugvellir Norðurlandanna geta ekki státað af álíka aukningu þó þeir hafi allir bætt við sig á árinu sem leið. Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is
Kaupmannahafnarflugvöllur ber höfuð og herðar yfir hina flugvellina á Norðurlöndunum. Um hann fóru t.a.m. nærri tíu sinnum fleiri farþegar en um Keflavíkurflugvöll í fyrra, eða rúmar 21 milljón. Arlanda í Stokkhólmi er næststærstur með um fimmtán milljónir farþega en þess ber að geta að hver farþegi er tvítalinn því fólk er talið við komu og brottför. Farþegar í innanlandsflugi eru ekki teknir með í samaburðinn.
Flugvellirnir fimm bættu sig allir á síðasta ári en stærsta stökkið tók Keflavíkurflugvöllur líkt og í fyrra. Helsinki var með næstmestu aukninguna árið 2011 en nú stóð fjöldinn í stað á stærsta fluvelli Finna eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Fjöldi farþega á aðalflugvöllum Norðurlandanna (innanlandsflug ekki meðtalið)
Fj. farþega 2012 | Breyting milli ára | |
Kaupmannahafnarflugvöllur | 21.401.054 | 5,3% |
Arlanda Stokkhólmi | 14.800.000 | 4% |
Vantaa Helsinki | 12.165.064 | 0,5% |
Gardermoen Osló | 11.796.647 | 6,1% |
Keflavíkurflugvöllur | 2.380.214 | 12,7% |
Tvöfalt fleiri innanlands frá Stokkhólmi en fara í heildina frá Keflavík
Fyrir utan flug Icelandair milli Keflavíkur og Akureyrar á sumrin þá fara nær eingöngu farþegar á leið til og frá landinu um Leifsstöð. Þessu er öfugt farið meðal frændþjóðanna því á stærstu flugvöllum þeirra er líka miðstöð innanlandsflugs. Í Stokkhólmi fóru í heildina tæpar 20 milljónir farþega um Arlanda flugvöll því innanlandsfarþegar voru um fimm milljónir talsins eða tvöfalt fleiri en ferðuðust um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári.