Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 7. desember 2001 kl. 10:23

Fær vatn í munninn

Mömmubitar, kókosbitar, gráfíkjuterta og ensk jólakaka. Tilhugsunin ein verður til þess að munnvatnskirtlarnir auka framleiðsluna svo um munar.
Nýja bakaríið, við Hafnargötu í Keflavík, hefur verið starfandi í nokkur ár en Eyjólfur Hafsteinsson hefur rekið það frá 1. janúar 1988. Nú starfa um þrettán manns hjá fyrirtækinu.
„Mömmubitinn hefur fylgt okkur frá upphafi en það er hnoðuð kryddkaka með smjörkremi og sultu. Hún er rosalega góð. Síðan seljum við Kókosbitann sem er hnoðuð terta með hindberjasultu. Svo er aldrei að vita nema eitthvað nýtt verði á boðstólnum fyrir viðskiptavini okkar nú fyrir jólin“, segir Eyjólfur í samtali við VF þegar augnablik gafst til að líta upp úr bakstrinum.
Í bakaríinu fást fjórar tegundir af smákökum en mömmukökurnar eru vinsælastar. Næstar á vinsældalistanum eru hinar sígildu piparkökur.
„Við verðum með fullt af girnilegum smástykkjum fyrir jólin, t.d. meiriháttar kransastykki í ýmsum útfærslum. Við munum einnig bjóða upp á nokkrar tegundir af rjómastykkjum fyrir þá sem vilja koma inn úr kuldanum og fá sér heitt kakó með rjóma. Að endingu er kannski rétt að minnast á laufabrauðin okkar sem njóta vaxandi vinsælda og eru orðin ómissandi á jólaborð Suðurnesjamanna sem og súrbrauðin okkar, sem klikka aldrei“, segir Eyjólfur bakarameistari og heldur áfram við baksturinn því nú má engan tíma missa.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024