Fá 18 milljónir fyrir að lenda á Sanford-flugvelli
Sveitarstjórn Seminole-sýslu í Flórída-fylki í Bandaríkjunum hefur ákveðið að greiða Icelandair 257 þúsund Bandaríkjadali (18 milljónir króna) fyrir að lenda á Sanford-flugvelli í fylkinu. www.vb.is greinir frá þessu í dag.
Blaðið segir það í fyrsta skipti sem sveitarstjórnin veitir úr fé úr efnahags- og þróunarsjóði sýslunnar til þess að borga með flugþjónustu. Fjárveitingin var samþykkt á þriðjudag.
Icelandair samþykkti í fyrra að skipta um flugvöll í Flórída og hætta að fljúga til og frá Orlando International Airport (OIA), en flugfélagið var fyrsta erlenda flugfélagið sem hóf alþjóðlegt áætlunarflug frá OIA fyrir tuttugu árum síðan, og byrja áætlunarflug til og frá Sanford-flugvelli.
The Orlando Sentinel segir að samkvæmt samningum hafi Icelandair samþykkt að fljúga 100 flug á ári frá Sanford-flugvelli og að áhöfn vélanna gisti á hótelum í Seminole-sýslu. Ástæðan fyrir fjárveitingunni er að sveitarstjórnin hefur áhuga á að byggja upp efnahagslífið í kringum flugvöllinn.
www.vb.is