Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Fimmtudagur 10. maí 2001 kl. 22:00

Erfiðara að flytja inn háskólamenntað fólk en nektardansmær

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, sjúkraþjálfari og eiginmaður hennar Sævar Guðmundsson vinna nú að því hörðum höndum að koma upp aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun. Húsnæðið er frekar óvenjulegt, glæsilegt kanadískt hús sem Sævar setti sjálfur upp.
„Mér ofbauð aðstaðan fyrir sjúkraþjálfun í Reykjanesbæ og ákvað þegar ég var í námi að ég vildi breyta þessu“, segir Adda. Langir biðlistar, lélegur tækjabúnaður og engin aðstaða fyrir hópa var eitthvað sem Öddu fannst hún þurfa að breyta. Árið 1997 byrjaði hún að gera áætlanir fyrir sjúkrþjálfunarstöðina við Aðalbraut. Í ljós kom að hagstæðast var að kaupa hús frá Kanada sem væri sérhannað undir sjúkraþjálfun. „Teikningar að húsinu voru klárar 1999 en það var mikil skriffinnska í kringum þetta. Það þurfti að fá ýmsa pappíra og svoleiðis.“ Húsið kom síðan nokkrum mánuðum of seint til landsins en í ágúst á síðasta ári var byrjað að grafa fyrir húsinu. Kostnaður við að koma upp aðstöðunni er gríðarlegur en hjónin fjármagna bygginguna og tækjabúnað sjálf. „Við höfum hvergi sótt um styrki en það gæti alveg komið til greina. Hjartvernd er til í samvinnu með okkur og það gæti vel verið að við sæktum um styrki þangað“, segir Adda. Vinir og kunningjar hafa hjálpað þeim hjónum mikið og segir Adda að það hafi komið sér þægilega á óvart hve margir voru tilbúinir að leggja sitt af mörkum til að koma upp húsinu. Sumir hafi jafnvel unnið nótt sem dag með Sævari.
Í húsinu er aðstaða fyrir sjö sjúkraþjálfara en eins og er eru þær tvær. Mikill skortur er á íslenskum sjúkraþjálfurum og hefur Adda því brugðið á það ráð að flytja inn erlent vinnuafl. Von er á dönsku pari seinna í mánuðinum auk þess sem kanadísk stúlka er á leiðinni. Öll verða þau send í íslenskunám um leið og þau koma til landsins . „Það er í raun erfiðara að flytja inn háskólamenntað fólk frá Bandríkjunum og Kanada en nektardansmeyjar frá Rússlandi. Umsóknin þarf fyrst að fara í gegnum menntamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið og eftir það þurfum við að bíða í 5 vikur“, segir Adda og bætir við að erlandir sjúkraþjálfarar séu mjög spenntir að koma til Íslands. „Við höfum fengið mikil viðbrögð frá fólki á Skandinavíu en ég kýs frekar Íslendinga ef þeir bjóðast.“ Um 80-100 nemar þreyta próf í sjúkraþjálfun árlega en aðeins 18 af þeim komast áfram. Fá sjúkrahús á Íslandi hafa þá reynslu sem þarf til að geta tekið nema.
Formleg opnun verður um leið og efri hæð hússins er til en starfsemi er þegar hafin á neðri hæðinni. Á efri hæð hússins verður salur fyrir hópæfingar en það hefur hingað til ekki verið í boði í Reykjanesbæ. Adda stefnir á að bjóða upp á HL hópa sem eru hannaðir fyrir fólk sem hefur átt við hjarta- og lungnasjúkdóma að stríða. Auk þess verður boðið upp á hópæfingar fyrir fólk með vefjagigt, offitusjúklinga, þunglynda, króníska baksjúklinga og aðra sem ekki geta stundað líkamsrækt í venjulegum líkamsræktarstöðum. Auk þess er í húsinu aðstaða fyrir meðferð fyrir börn og mikið fatlaða einstaklinga.

Mynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, sjúkraþjálfari og Sævar Guðmundsson, eigendur, Rannveig Sigurðardóttir, ritari og Arna Helgadóttir, sjúkraþjálfari
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024