Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Enn rólegt yfir byggingaframkvæmdum í Reykjanesbæ
Í járnsmiðju Hjalta Guðmundssonar ehf. F.v.: Jónas Lúðvíksson, Andrés Hjaltason og Guðmundur Hjaltason. VF-myndir: Hilmar Bragi
Sunnudagur 22. júlí 2012 kl. 04:23

Enn rólegt yfir byggingaframkvæmdum í Reykjanesbæ

- segja bræðurnir Andrés og Guðmundur Hjaltasynir.

Byggingamarkaðurinn á Suðurnesjum er ennþá mjög rólegur. Verkefni á höfuðborgarsvæðinu hafa aðeins aukist en það er mat Andrésar Hjaltasonar hjá Hjalta Guðmundssyni ehf. byggingaverktaka að Suðurnes hafi setið eftir. Hann sagði að öll ný verkefni væru aukning, því verkefnaframboð hefur verið næstum því ekki neitt.

Víkurfréttir tóku hús á þeim bræðrum, Andrési og Guðmundi Hjaltasonum, í síðustu viku. Þá voru þeir að undirbúa framkvæmdir við sökkla hjúkrunarheimilis að Nesvöllum. Það kom í hlut Hjalta Guðmundssonar ehf. að steypa sökkla byggingarinnar sem er ein stærsta einstaka framkvæmdin í byggingageiranum í Reykjanesbæ ef horft er framhjá framkvæmdum Norðuráls í Helguvík sem eru á hægri keyrslu þessar vikurnar.

Þá hefur Hjalti Guðmundsson ehf. nýlokið við að steypa upp turn í affalli Reykjanesvirkjunar sem verður notaður til að miðla vatni í nýja fiskeldisstöð sem mun rísa á Reykjanesi. Nú er unnið að lóðarframkvæmdum á landi fiskeldisstöðvarinnar, en þeir Andrés og Guðmundur vonast til að framkvæmdir á Reykjanesi eigi eftir að vera góð vítamínsprauta fyrir byggingaiðnaðinn á Suðurnesjum. Framkvæmdin við turninn á Reykjanesi hefur verið vinna í tæpa tvo mánuði fyrir 6-8 menn frá fyrirtækinu.

Sl. vetur hefur Hjalti Guðmundsson ehf. unnið að stækkun á aðstöðu flugvirkja hjá ITS á Keflavíkurflugvelli. Þá rekur Hjalti Guðmundsson ehf. vélsmiðju við Víkurbraut þar sem tveir karlar hafa haft næg verkefni í vetur en þar er unnin fjölbreytt smíðavinna í stál, járn og blikk. T.a.m. er smíði á stigum og stigahandriðum stór þáttur í framleiðslunni þar, auk annarrar sérsmíði ýmiskonar.
Framkvæmdin á Nesvöllum er áætlaður verktími í þrjá mánuði þar sem sökklar og kjallari verða reist. Um er að ræða 5-7% af heildarverkinu. Þegar þeirri framkvæmd er lokið verður aftur boðið út frekari smíði.

Mikil breyting hefur orðið á byggingaverktökum á Suðurnesjum frá hruni 2008. Verktakafyrirtækin hafa skroppið mikið saman og eru með fáeina starfsmenn í vinnu. Fjölmargir smiðir hafa horfið til annarra starfa eða eru komnir til Noregs að vinna. Guðmundur Hjaltason segir að þeir hjá Hjalta Guðmundssyni ehf. hafi verið heppnir að fá bæði smíðavinnuna við veituturninn á Reykjanesi og svo vinnuna við sökkla og kjallara hjúkrunarheimilisins. Það hafi komið í veg fyrir að segja þurfi upp mannskap og reyndar hefur fyrirtækið bætt við sig nokkrum strákum. Í dag eru 14 smiðir hjá fyrirtækinu í heildina. Þeir eru að vinna á byggingasvæðinu við Nesvelli og einnig eru nokkrir smiðir í Borgarfirði að vinna að húsbyggingu þar en það verkefni mun standa fram á haust.

Þeir bræður segja framhaldið svolítið óljóst. Engar framkvæmdir aðrar en hjúkrunarheimilið séu í farvatninu og þá sé lítið að frétta af málum í Helguvík og hvert framhald framkvæmda verður þar. Þeir segja þó jákvæð teikn í því að það sem af er þessu ári hefur verið óskað eftir tilboðum í fleiri verk en á undanförnum tveimur árum. Undanfarin ár hefur fyrirtækið verið að fleyta sér áfram á 2-3 mánaða verkefnum en það eru talsverð viðbrigði fyrir fyrirtæki sem var nær eingöngu í opinberum framkvæmdum eins og smíði skólabygginga og íþróttamannvirkja, svo dæmi séu tekin. Þá byggði Hjalti Guðmundsson ehf. eitt fjölbýlishús í Innri Njarðvík sem lokið var við árið 2007.

Þegar fyrirtækið var hvað stærst í opinberum framkvæmdum störfuðu um 40 manns hjá fyrirtækinu og með undirverktökum var fyrirtækið að veita 100 til 120 manns atvinnu. Af þessum fjölda þá náði erlent vinnuafl að hámarki 5%.
Það hafa verið mikil viðbrigði hjá smiðunum síðustu vikur. Þannig fylgdi mikil yfirvinna framkvæmdinni á Reykjanesi sem skilar sér í budduna og Guðmundur líkir þessu við loðnuvertíð. Ástæðan fyrir því að framkvæmdir á Reykjanesi urðu að ganga rösklega fyrir sig eru að túrbínur Reykjanesvirkjunar eru bara stöðvaðar á ákveðnum tímum til viðhalds og þá er eini tíminn til að tengja lagnir frá þeim inn á þennan nýja veituturn sem var smíðaður en þangað verður vatn fiskeldisstöðvarinnar sótt. Andrés sagði vinnuna á Reykjanesi hafa gengið vel og þar væri lítið eftir í frágangi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024