Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 13. desember 2001 kl. 11:45

Engir græða á gríðarlega háu steinbítsverði nema sjómenn og útgerðarmenn

Verð á ferskum steinbít hefur farið hæst í 340 kr/kg á íslensku fiskmörkuðunum síðustu dagana. Slíkt verð samsvarar flakaverði upp á vel yfir 1000 kr/kg. Flökin eru send í flugi til meginlands Evrópu og skýrir mikil vöntun á steinbít þetta himinháa verð á íslenska steinbítnum.
Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri hjá Trosi ehf. í Sandgerði, segir í samtali við InterSeafood.com að veruleg breyting hafi orðið í úflutningi og sölu á ferskum steinbítsflökum sl. þrjú ár. Á þeim tíma hafi viðskiptin breyst úr ,,spottsölu” í föst viðskiptasambönd sem tryggt hafa hátt hráefnisverð. Tros ehf. sendi núorðið fersk steinbítsflök með flugi fjórum til fimm sinnum í viku og markaðurinn sé aðallega í Þýskalandi, Hollandi og Belgíu.
-- Hugarfarið hjá þeim sem veiða og vinna steinbítinn hefur gjörbreyst á þessum þremur árum. Það var alltaf litið á steinbít sem ódýran fisk og menn lögðu sig ekkert sérstaklega fram í vinnslunni. Eftir að góður markaður opnaðist fyrir flökin á meginlandi Evrópu hafa gæðakröfurnar aukist og verðið hefur hækkað til mikilla muna. Fersk steinbítsflök eru dýr vara en eins og verðið er núna þá græða engir á þessu nema sjómenn og útgerðarmenn. Skorturinn veldur því að útflutnings- og söluaðilar taka á sig tímabundið tap til þess að viðhalda markaðsstöðunni, segir Ingvar Eyfjörð.
Undir þetta tekur Davíð Davíðsson hjá SÍFí Þýskalandi. Hann segir verðið, sem nú er verið að greiða fyrir steinbítinn heima á Íslandi, vera algjört rugl en menn leggi það á sig að greiða þetta verð til þess að halda þessari vöru í verslunum.
-- Fersk steinbítsflök frá Íslandi eru orðin eftirsótt vara. Við erum í sambandi við framleiðendur heima á Íslandi sem vita nákvæmlega hvernig þeir eiga að meðhöndla flökin og steinbítur, sem flakaður er á Íslandi í dag, er kominn í verslanir í Þýskalandi og víðar á morgun, segir Davíð en hann upplýsir að eðlilegt verð á ferskum steinbítsflökum til heildsala ytra sé um 14,50 til 18 þýsk mörk fyrir kílóið eða 710 til 880 ísl. kr/kg. Nú sé verðið hins vegar komið upp fyrir 20 mörk eða í um 1000 kr/kg og því sé ljóst að fiskverkendur og útflytjendur hagnist ekkert á því að vinna og selja steinbít sem kostar um eða yfir 300 kr/kg á íslensku fiskmörkuðunum.
-- Þegar framboðið er lítið og verðið hækkar þá sleppa verslanirnar álagningunni. Menn vilja halda þessum markaði og haga sér í samræmi við það, segir Davíð Davíðsson.
Sjá nánar á InterSeafood.com.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024