Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Endurskipulagning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.
Þriðjudagur 11. maí 2004 kl. 11:29

Endurskipulagning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.

Síðustu daga hafa forsvarsmenn Íslensks markaðar (ÍM) borið stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) þungum sökum á opinberum vettvangi eftir að samningi ÍM um leigu verslunarrýmis í flugstöðinni var sagt upp. Af því tilefni telja stjórnendur FLE rétt að minna á að uppsögn leigusamningsins við ÍM er liður í endurskipulagningu verslunar- og þjónusturýmis flugstöðvarinnar sem staðið hefur yfir í langan tíma en ekki hefur verið hægt að ljúka vegna málaferla ÍM. ÍM er með mjög stórt rými í flugstöðinni en litla veltu á hvern fermetra.  Með því að skipta rýminu upp í smærri einingar er hægt að hleypa fleiri aðilum að með fjölbreyttari þjónustu og skapa fleiri störf. Með hagsmuni ferðamannsins að leiðarljósi hefur verið stefna flugstöðvarinnar að auka fjölbreytni í verslun og þjónustu í flugstöðinni og bjóða upp á verð eins og best gerist í öðrum fríhöfnum. 

Margvíslegar athugasemdir
Sérfræðingar sem eru FLE hf. til ráðgjafar hafa talið fyrirkomulag  verslunarreksturs ÍM óheppilegt og hvatt til þess að verslun á því svæði yrði breytt.  Gerðar hafa verið margvíslegar athugasemdir við starfshætti ÍM sem falla ekki nógu vel að þeirri uppbygginu og ímynd sem verið er að treysta í flugstöðinni. Þannig er algengt að verðlagning þeirra sé hærri en gengur og gerist í verslunum innanlands, þrátt fyrir að ÍM selji undir formerkjum “Tax and Duty Free”.  Með því er verið að slá ryki í augu ferðamanna. Þrátt fyrir að FLE hafi veitt ÍM yfir 100 milljónir króna í afslætti á leigu vegna samdráttar í farþegafjölda eftir atburðina í Bandaríkjunum 2001 er ekki hægt að merkja að þetta hafi skilað sér í lægra vöruverði hjá fyrirtækinu. Þróun í flugstöðinni felur í sér að verið er að fjölga sérverslunum og fellur fyrirkomulag verslunarreksturs ÍM ekki að þeirri stefnumótun. Þá hafa ýmsir mikilvægir íslenskir framleiðendur kvartað undan því að hafa ekki haft tök á að selja sínar vörur í gegnum ÍM því ÍM veitir ákveðnum framleiðendum forgang. 

Forval
Í því skyni að opna frekar fyrir aðgang að markaði fyrir verslun og þjónustu á fríhafnarsvæði flugstöðvarinnar var efnt til forvals árið 2002 þar sem þeim sem uppfylltu skilyrði forvalsins var gefinn kostur á að bjóða í rekstur verslunar og þjónustu. Í forvalinu sóttu yfir 50 aðilar um en þar af voru um 26 aðilar í verslunarrekstri.  Vegna málaferla ÍM hefur framvinda forvalsins verið í biðstöðu í tæp tvö ár. Fimmtudaginn 29. apríl sl. féll dómur  Hæstaréttar í máli ÍM gegn FLE og samkeppnisráði sem staðfesti að FLE hefur fullt og óskorað vald til að ákveða hvaða húsnæði í flugstöðinni það tekur undir verslunarrekstur eða þjónustu og hvaða  vörur eða þjónustu það tekur í sölu.  Jafnframt er það undir flugstöðinni komið hvort og að hvaða marki félagið felur öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega.  Það er fyrst að fengnum þessum dómi sem nú er hægt að halda áfram vinnu samkvæmt markmiðum forvalsins sem er að bjóða upp á aukna og fjölbreyttari þjónustu við ferðamenn sem leið eiga um flugstöðina.  

Kauptilboð í ÍM
FLE hf fékk upplýsingar um að forvarsmenn ÍM  væru í viðræðum við þriðja aðila um að selja fyrirtækið. Í ljósi þessa og til að freista þess að leysa málið farsællega hafði FLE frumkvæði að því að hefja óformlegar viðræður um að kaupa ÍM. FLE fékk endurskoðunarfyrirtæki til að framkvæma verðmat á ÍM.  Í síðasta mánuði lagði FLE fram formlegt kauptilboð til eigenda  ÍM sem er yfir því verðmati sem gert var.  Því tilboði svaraði ÍM ekki. 

Endurskipulagning verslunarsvæðis Flugstöðvarinnar
Á næstu misserum verða miklar framkvæmdir í flugstöðinni s.s. stækkun á innritunarsal, stækkum á móttökusal komumegin, ný skrifstofuaðstaða reist á 3. hæð og stækkun og endurskipulagningu  á  verslunar- og þjónustusvæði  á 2. hæð. Við þessa endurskipulagningu þarf flugstöðin á því svæði að halda þar sem meginaðstaða ÍM er í dag. Því var samningi um leigu á húsnæði ÍM sagt upp þann 30. apríl með samningsbundnum þriggja mánaða fyrirvara.   Markmið forvalsins  er að auka samkeppni og því  er ekki hægt að láta ÍM hafa forgang fram yfir aðra aðila sem sóttu um í forvalinu. Með því væri ekki jafn aðgangur annarra að verslunarsvæði flugstöðvarinnar.  

Fjölgun starfa framundan
Fjölgun rekstraraðila þýðir að störfum fjölgar í flugstöðinni. Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf mun beita sér fyrir því að ef ÍM hættir starfsemi muni starfsmenn ÍM hafa forgang að störfum.

Fundur var haldinn 10. maí með forsvarsmönnum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis  og Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Kynntar voru þær framkvæmdir sem nú eru í gangi í flugstöðinni, framtíðaruppbygging hennar og endurskipulagning verslunar- og þjónustusvæðis. Búast má við aukningu starfa sem nemi um 70 stöðugildum meðan á framkvæmum stendur. Vegna stækkunar verslunar- og þjónustusvæðis og fjölgun rekstaraðila í flugstöðinni er áætlað að störfum fjölgi um 30 til 40 á næstu 2 árum. 

Frá þessu segir í tilkynningu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024