Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Ekið um tunglið og íslenska hálendið á Reykjanesskaganum
  • Ekið um tunglið og íslenska hálendið á Reykjanesskaganum
    Kjartan og Jakob.
Laugardagur 27. febrúar 2016 kl. 06:00

Ekið um tunglið og íslenska hálendið á Reykjanesskaganum

- 4x4 Fjórhjólaævintýri með vinsælar fjórhjólaferðir um Reykjanes

4x4 Fjórhjólaævintýri er fjölskyldufyrirtæki í Grindavík. Sigurður Óli Hilmarsson stofnaði fyrirtækið árið 2007 ásamt sonum sínum, þeim Jakobi og Kjartani. Fyrirtækið býður upp á fjórhjólaferðir og þeir bræður sáu reksturinn fyrir sér sem ágæta aukavinnu með öðru starfi.

Nú, um níu árum síðar, er fyrirtækið eitt það stærsta hér á landi í ævintýraferðum á fjórhjólum, með starfsmenn í sjö og hálfu stöðugildi allan ársins hring og marga starfsmenn sem mæta í útköll þegar mikið er að gera.



Með 44 fjórhjól

4x4 Fjórhjólaævintýri  eru með 44 fjórhjól sem öll eru af gerðinni Can-Am. „Við erum búnir að vera í þessu í átta ár og prófað margt. Við endum hins vegar alltaf í þessum hjólum sem eru bæði flott og endingargóð,“ segir Jakob Sigurðarson hjá 4x4 Ævintýraferðum. Nú stendur yfir mikil endurnýjun á hjólaflotanum sem telur 44 fjórhjól og þá eru einnig þrír Polaris buggy-bílar til útleigu. Fjórhjólin eru öll tveggja manna en bílarnir taka þrjá farþega og ökumann. „Við höfum verið að horfa til þess að fjölskyldur geti notað bílana, foreldrarnir skipst á að keyra og börnin setið afturí,“ segir Kjartan Sigurðsson.

Þeir bræður eru ekki eingöngu með fjórhjól og buggy-bíla því fyrirtækið er einnig með útleigu á fjallahjólum. Þar hefur allur búnaður verið endurnýjaður og það eru nú til leigu tuttugu ný fjallahjól.
„Við erum með hjólaferðir alla daga á sumrin á morgnana og erum m.a. að bjóða upp á hjólaferðir í kringum Bláa lónið og þetta er orðið mjög vinsælt,“ segir Jakob.

Fyrirtækið útvegar allan hlífðarbúnað fyrir fjórhjólaferðirnar, hvort sem það eru hjálmar, skór, hanskar og hlífðarfatnaður. „Þú þarft ekki að hugsa um neitt, þú bara mætir eins og þú ert og við græjum þig upp,“ segir Kjartan.



Janúar og febrúar orðnir góðir mánuðir

- Gátuð þið ímyndað þennan vöxt sem hefur orðið í ferðaþjónustunni á undanförnum árum?
„Ekki svona mikinn almennt. Vöxtur okkar hefur verið umfram væntingar. Þegar við vorum að byrja starfsemi voru flestir að loka í byrjun september og opna aftur í byrjun maí. Í dag eru janúar og febrúar orðnir góðir mánuðir og jólin eru blómlegur tími. Viðskipti yfir vetrartímann eru alltaf að aukast sem er heillandi fyrir fyrirtæki til að geta lifað af árið,“ segir Jakob.

Þeir bræður fá reglulega að heyra það frá vinum að þeir hafi verið taldir ruglaðir að fara út í þennan rekstur og margir hafi óttast að þetta væri bóla sem myndi springa.

- Þetta er ekki bóla?
„Nei. Við erum komnir til að vera.“



Þarf eldmóð og áhuga

Jakob og Kjartan segja að það þurfi eldmóð og áhuga til að fara í svona rekstur. Það taki tíma að byggja upp reksturinn og þeir hefðu farið í eitthvað allt annað ef þeir hafi ætlað sér að verða ríkir. „Við sem eigendur þurfum alltaf að vera með puttann á púlsinum, því annars fer þetta bara í vitleysu. Við þurfum að hafa öryggismál í lagi, halda kúnnanum ánægðum og markaðssetja þetta rétt en það fer mikið af peningum í markaðsmál,“ segir Jakob.

Fyrirtæki þeirra rekur örugglega stærsta fjórhjólaverkstæði landsins sem sér um viðhald á öllum hjólum leigunnar. Einn starfsmaður er í fullu starfi á verkstæðinu, auk þess sem Sigurður Óli, faðir þeirra, er þar einnig. Þá eru þeir bræður einnig að fást við viðhald og viðgerðir. Þeir hrósa hins vegar Can-Am hjólunum og segja þau ótrúlega traust og þoli mikið álag.



Fimm stjörnur á TripAdvisor

4x4 Fjórhjólaævintýri  fær góða dóma á TripAdvisor og hafa verið með 5 stjörnur allt frá upphafi. Þeir bræður segja vefinn veita ferðaþjónustunni gott aðhald. Þeirra fyrirtæki og Bláa lónið hafa skipst á um að skipa efsta sætið þegar kemur að áhugaverðustu afþreyingunni í ferðaþjónustu á Reykjanesskaganum. Bræðurnir eru að taka á móti 10.000 viðskiptavinum á ári og segja að það væri óeðlilegt ef ekki væri einhver óánægður með þjónustuna eða það sem er í boði. Það sé hins vegar markmið fyrirtæksins að sinna öllum vel. Boðið er upp á fjórar fastar brottfarir á dag og það skiptir ekki máli hvort það komi einn eða hundrað. Þessi eini fái sömu þjónustu á hinir hundrað, því einn ánægður viðskiptavinur geti með umtali skilað öðrum hundrað viðskiptavinum.



Jakob og Kjartan höfðu verið duglegir að fara um Reykjanesskagann á ýmiskonar leiktækjum og séð með eigin augum þessa leyndu perlu sem svæðið er. Það má segja að þessi flækingur þeirra um skagann hafi verið upphafið að 4x4 Ævintýraferðum. Þeir hafi áttað sig á að það mætti selja ferðamönnum ferðir um svæðið sem væru gerðar út frá Grindavík.

Ferðirnar sem þeir bjóða upp á eru allt frá klukkustundar ferð og nú er tveggja daga ferð í smíðum, sem verður mikið ævintýri. Fyrri daginn er farið um vestari hluta Reykjanesskagans, Gunnuhver, Eldvörp og Sandvíkina. Um kvöldið er farið í Bláa lónið og seinni daginn verður farið um austari hlutann, farið í Seltún og á Djúpavatnsleið.

Fyrirtækðið hóf starfsemi sína með hópferðum fyrir Íslendinga en svo vatt þetta upp á sig og gott orðspor fór að spyrjast út og útlendingum fór að fjölga. Í dag eru ferðamenn sóttir til Reykjavíkur fjórum sinnum á dag og farið í ferðir sem eru frá klukkustund og upp í heilan dag.



Sandvík heillar

Kjartan segir að Sandvík heilli marga útlendinga. Þeir hafi mikinn áhuga á svörtu ströndinni. Þá sé hægt að segja miklar sögur þar, m.a. af Clint Eastwood og einnig er Reykjaneshryggurinn sýnilegur þar sem hann gengur á land og flekaskilin milli Ameríku- og Evrasíuflekans sem brú milli heimsálfa er á milli. Í Sandvík er boðið upp á heimabakaðar kleinur og heitt kakó.

Fyrirtækið býður einnig upp á íburðarmeiri ferðir þar sem farið er með hópa í ferðir þar sem stoppað er á ákveðnum stöðum þar sem m.a. er grillað fyrir hópinn. Þannig hefur Örn Garðarsson á SOHO séð um veislur fyrir 4x4 Ævintýraferðir þar sem grillaður er beikonvafinn skötuselur og lamb fyrir gesti.
Vinsælustu ferðirnar í dag eru frá Grindavík þar sem keyrt er út á Reykjanestá að Valahnjúk og Gunnuhver. Einnig er vinsælt að fara t.d. að Vigdísarvöllum, í Krýsuvík, að Selatanga og í Seltún. Þeir lýsa ferðunum sem þeir fara með ferðamenn að þær geti verið eins og ferð um Tunglið og upp á hálendið. Reykjanesið er eins og Tunglið á meðan Vigdísarvellir eru með hitaliti eins og á hálendinu og það aðeins í 30 mínútna fjarlægð frá Reykjavík.

Ekkert að óttast

Þeir Jakob og Kjartan segja að fólk þurfi ekki að óttast fjórhjólin. Þau líti kannski út fyrir að vera hættuleg farartæki. Það sé hins vegar auðvelt að stjórna þeim. Það sé auðveldara að stjórna fjórhjóli en venjulegri bifreið. Það sé í raun bara bensíngjöf og bremsa sem þurfi að hugsa um og halda sig á slóðum. Slóðar hafa verið lagðir víða umhverfis Grindavík og um þá sé góð sátt á milli manna. Unnið hafi verið að verkefninu í samvinnu nokkurra aðila og bæjarfélagsins. Slóðarnir séu jafnt fyrir fólk á fjórhjólum, hestum, reiðhjólum og gangandi vegfarendur. Allir sýni hvor öðrum tillitsemi og virðingu og það samstarf gangi vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024